sunnudagur, mars 05, 2006

 

Í Fannahlíð er gaman

Gleðskapurinn í Fannahlíð í gærkvöldi var alveg frábær. Það var hreint ótrúlega gaman að hitta þessa gömlu sveitunga - brottflutta og þá sem enn búa í Skilmannahreppi. Ég hélt að ég myndi kannski ekki þekkja nema fáeinar hræður en raunin varð önnur og þarna hitti ég fólk sem ég hef ekki séð síðan ég var um fermingu og frænku sem ég sá síðast þegar hún var fjögurra ára en er núna fimmtug og hefur nýlokið doktorsprófi í stjórnsýslufræðum. Á boðstólum var kínverskt hlaðborð og kaffi og konfekt á eftir. Ég vann fáeinar trjáplöntur í spurningakeppni (veit reyndar ekki hversu margar) og lét vita að það ætti að planta þeim í skógræktina - ég fer ekki að splæsa þeim í lóðina hérna. Og svo var auðvitað dansur aftaní, harmóníkuleikur og söngur og við hjónin dönsuðum Kostervals af mikilli list. En nú er spurning hvað verður um Fannahlíð og hvort Rauðholtskynið þarf að finna sér nýjan samastað fyrir árlega ættarmótið. Vonandi ekki. Mér finnst alveg að þessi moldríki hreppur geti bara afhent Skógræktarfélaginu húsið til eignar. En það yrði auðvitað að gerast áður en sameiningin verður.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?