miðvikudagur, maí 10, 2006

 

Fréttafæð eða hvað?

Mér finnst dapurlegt að sjá fréttirnar frá réttarhaldinu vegna sjóslyssins sem varð hérna á sundunum í fyrrahaust þar sem tvær manneskjur létu lífið. Varðar almenning virkilega svona mikið um þetta? Þarna varð einfaldlega mannlegur harmleikur og öllum þeim sem eiga um sárt að binda hlýtur að líða ennþá verr fyrir bragðið. Oj, bara.
En kannski er bara svona lítið að gerast í þjóðfélaginu núna þótt ekki sé nema rúmur hálfur mánuður til sveitarstjórnarkosninga. Og talandi um sveitarstjórnarkosningar finnst mér flott hjá mínum gömlu sveitungum að útbýta bara því sem til er í sjóði fyrir sameininguna. Ég gleðst heilshugar með Skilmenningum að fá sex hundruð þúsund kall í vasann - reyndar ekki í vasann heldur í úttekt í BYKO til að geta flikkað upp á fasteignirnar - sem, bæ ðe vei, líta allflestar þokkalega vel út svona frá þjóðveginum séð. En hvað fréttafæðina snertir hlýtur eitthvað jákvætt að vera að gerast ef vel er að gáð, en það er víst því miður ekki lengur til siðs að flytja jákvæðar fréttir nema í algeru lágmarki. Þegar ég vann á ónefndri sjónvarpsstöð stakk ég upp á því því við ónefndan fréttastjóra (sem reyndar er orðinn útvarpsstjóri núna) að prófa að flytja bara jákvæðar fréttir svona eitt kvöld. Honum fannst þetta virkilega athyglisverð uppástunga en brosti svo og spurði: En, Sigga mín, hvað ef það verður nú stórslys eða hamfarir einhvers staðar?

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?