laugardagur, maí 06, 2006

 

Heilmikið fjör

Það er svo mikið að gera hjá mér núna í söng og selskapslífi að ég hef varla tíma til nokkurs annars. Tónleikarnir um síðustu helgi voru mjög vel heppnaðir, sérstaklega þeir seinni þegar við vorum búnar að syngja okkur vel saman í öllum kórunum. Reyndar var ég með all svakalegt kvef, en komst þó stórslysalaust í gegnum prógrammið og mér leið reyndar betur á seinni tónleikunum. Núna áðan vorum við að syngja á styrktartónleikunum Neyðarhjálp úr norðri, tókum bara fáein lög en fengum góðar viðtökur. Það var annars leiðinlegt að sjá að Loftkastalinn var ekki fullur, ég hefði viljað sjá þarna myndarlega söfnun. Hitt er svo annað mál að á þessum árstíma eru endalausir tónleikar um alla borg og fólk getur ekki verið alls staðar. Það voru reyndar ótal frábærir listamenn þarna í Loftkastalanum - en við vorum síðast á dagskránni svo ég heyrði ekki í neinum nema Snorra Idoli - hann var auðvitað ágætur, hann hefur eitthvað svo sérkennilega gamaldags rödd finnst mér. Á morgun er svo bekkjarsammenkomst, það verður gaman að hittast, sérstaklega að sjá sjúklingana okkar en mér skilst að þær séu allar á góðum batavegi. Um næstu helgi eru svo tónleikar í Reykholti á laugardaginn með Freyjukórnum. Við leggjum af stað úr bænum klukkan níu um morguninn og komum ekki heim fyrr en seint um kvöldið. Og í ofanálag er ég með óteljandi verkefni sem áttu að vera tilbúin "helst í gær". Og ég þarf líka að vinna fram í tímann því nú eru bara þrjár vikur í Danmerkurferðina og þegar ég kem heim úr henni hef ég bara tvær vikur heima áður en haldið verður til Ítalíu. Áður en ég fer til Danmerkur þarf ég að vera búin að klára allt fram í miðjan júní og þegar ég kem heim þarf ég á þessum hálfa mánuði helst að klára verkefni fram í miðjan júlí. Úff!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?