sunnudagur, maí 14, 2006
Tónleikar í Reykholti
Gærdagurinn var í alla staði frábær. Veðrið eins og best var á kosið og Reykholt skartaði sínu fegursta. Það var auðvitað farið að æfa strax og við komum upp eftir - Freyjukonur voru mættar á staðinn og tóku á móti okkur. Klukkan hálftvö var svo gert hlé og eftir dýrðarinnar hádegisverð á hótelinu fóru sumar að skoða sig um og aðrar að hvíla sig, en ég og fleiri skelltum okkur í heitu pottana. Við höfðum 2 stór herbergi á hótelinu og þar voru hnausþykkir frottésloppar, handklæði og inniskór í hrönnum og þetta var mikill lúxus. Eftir að hafa snurfunsað okkur og skellt okkur í kórbúningana var smáæfing í kirkjunni og svo hófust tónleikarnir klukkan fimm. Borgfirðingar eru greinilega söng- og tónlistarunnendur því kirkjan var stútfull. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að hljómburðurinn í kirkjunni er frábær. Tónleikarnir tókust nokkuð vel, við klúðruðum reyndar einu fallegasta laginu, en svo fengum við að taka það sem aukalag og þá sungum við eins og englar. Ég hélt að vísu að enginn hefði klúðrað þessu nema ég, en á eftir sagði Magga að allur 2. sópran hefði verið úti að aka. Það skýrir hvers vegna ég heyrði ótal raddir í kringum mig sem engin söng það sama! Eftir tónleikana var haldið að Fossatúni þar sem snæddur var rosalega góður kvöldverður og mikið sungið og hlegið. Heimferðin gekk tíðindalaust og ykkar einlæg var komin í rúmið og búin að breiða yfir sig um eittleytið. Hélt reyndar í morgun að ég hefði kannski átt að drekka einu hvítvínsglasi minna í Fossatúni en eftir hressilegan sundsprett var heilsan orðin ljómandi góð. Og konur sem komnar eru á sjötugsaldur kunna auðvitað að fara með vín.