mánudagur, júní 26, 2006

 

Bella Islandia!

Það er ósköp gott að vera kominn aftur heim í hraglandann og ferska loftið! Ítalía er auðvitað alltaf ómótstæðileg og það var gaman að koma aftur til Marina di Massa. Þetta var ósköp ljúf vika en ég verð að viðurkenna að mér fannst svolítið erfitt að syngja við messu í dómkirkjunni í Massa strax á sunnudagsmorguninn - við vorum allar heldur framlágar eftir 12 tíma ferðalag daginn áður og svo var æfing strax á laugardagskvöldinu. En sunnudagsmessan gekk bara nokkuð stórslysalaust þótt rútan sem átti að sækja okkur kæmi ekki og fimm helstu söngpípurnar ásamt Agga undirleikara þyrftu að rjúka af stað í leigubíl til að byrja. Við hinar mættum svo í gloríunni og gátum tekið vel undir. Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag var æft strax að loknum morgunverði og á þriðjudaginn fór ég líka í einkatíma hjá Sigríði Ellu. Það er stórkostlega gaman að fá tilsögn hjá annarri eins dívu sem hefur alveg sérstakt lag að draga fram það besta í hverri og einni. Tónheyrnin, sem ég hef alltaf talið vera veiku hliðina mína, var í fínu lagi og ég var bara hæstánægð með sjálfa mig þegar tímanum lauk. Á fimmtudaginn var svo vaknað snemma og ekið til Bologna. Þar höfðum við ágætan tíma til að skoða miðborgina og kíkja í búðir áður en við fórum svo á fínan 5 stjarna veitingastað utan við borgina þar sem við fengum dýrindis kvöldverð að hætti innfæddra og sungum síðan fyrir matargesti - og gerðum það dável. Þaðan var svo haldið af stað laust fyrir miðnættið og komið á hótel Lido í Marina di Massa um hálfþrjúleytið um nóttina. Ég slapp auðvitað ekki við moskítóbit frekar en venjulega, ég vona a.m.k. að það hafi bara verið fluga sem nartaði svo rækilega í fótinn á mér uppi í Carrara-fjöllunum á miðvikudaginn að hann stokkbólgnaði og ég sárkenndi til þegar bólgan var að breiðast út. En strax á föstudagsmorguninn fór ég í apótekið og sýndi ungum og sætum apótekara minn bólgna vinstri fót og fékk hjá honum sterakrem og kælandi gel sem sló á bólguna. En bólgin er ég samt enn þá og kemst ekki í alla skó, þótt þetta sé samt mikið að lagast. Og nú bíðum við eftir yngri syninum og fjölskyldu sem eru á leiðinni frá London og væntanleg hingað á Tjarnarból einhvern tíma eftir miðnættið - það er held ég klukkutímaseinkun á vélinni. Þau halda svo áfram til Akureyrar strax á morgun.
Nú er nóg komið að sinni - meira seinna.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?