þriðjudagur, júní 06, 2006

 

Komin heim í heiðardalinn...

...eða öllu heldur á útnesið eftir frábæra vikudvöl á Jótlandi. Allt var eins og best verður á kosið nema kannski veðrið - sem var dálítið rysjótt en við höf'ðum auðvitað með okkur hlý föt. Annars fengum við að mig minnir þrjá yndislega daga í sól og sumaryl og hinir dagarnir voru svo sem ekkert slor. Við lentum ekki í rigningu nema fyrsta daginn. Reyndar einn daginn þegar við vorum búnar að flatmaga í sólbaði heima við bústaðinn og ákváðum að skreppa í göngu á ströndinni til að bleyta aðeins tærnar kom þessi líka hellidemba og rosalegt þrumuveður einmitt þegar við vorum að koma okkur af stað. Við ætluðum bara að bíða veðrið af okkur og spila rummikub á meðan, en rigningin ætlaði engan enda að taka svo við spiluðum, held ég, frá klukkan fjögur síðdegis til klukkan að verða fjögur um nóttina með örstuttu matarhléi. Enda var öll kvöld setið við að spila, annað hvort skrafl, yatzy eða rummikub en spilin sem ég keypti fyrsta daginn til að við gætum spilað póker kom ég með ósnert heim. Sem sagt frábært frí.
En það er vissulega eitthvað undarlegt við pólitíkina hérna á Fróni. Ég var hálft í hvoru fegin að stinga bara af strax og ég var búin að kjósa en hringdi svo sem heim daginn eftir til að heyra um úrslitin - þau voru nokkuð á þann veg sem ég bjóst við og ég er fegin að "mitt fólk" kom vel út úr kosningunum í höfuðborginni. Hérna á Nesinu eru auðvitað bara tveir listar og kosningarnar fara alltaf á sama veg. En atburðir síðustu daga eru eins og léleg sápuópera. Ekki get ég sagt að mér hafi litist vel á að fá Finn Ingólfsson inn í pólitíkina á ný - hafi hann einhvern tíma yfirgefið hana eins og spurt var í útvarpinu í fyrradag. En með fjölmiðlafundi Halldórs í gær tók þó steininn úr. Hvers vegna í ósköpunum er ekki rofið þing og boðað til kosninga? Jú, af einfaldri ástæðu. Yrði það gert núna er nokkuð öruggt að Framsóknarflokkurinn líður undir lok. Hins vegar er Guðni Ágústsson góður eins og alltaf, lýsir því yfir að hann sé í blóma lífsins "stjórnmálalega séð" og ætlar ekki að láta deigan síga, enda vinsælasti þingmaður Framsóknar að mig minnir. Nú er bara spurning hvort stjórnarandstaðan geti með hjálp einhverra óánægðra stjórnarþingmanna fengið samþykkt vantraust á ríkisstjórnina. Ég efast hins vegar um það en bíð spennt eftir næsta hluta þessa bráðspennandi framhaldsleikrits.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?