föstudagur, júní 09, 2006

 

Lífsháski

Í gær lenti ég í bráðum lífsháska. Þannig var mál með vexti að ég þurfti að skreppa bæjarleið og ók galvösk af stað á mínum fjallabíl (Toyota RAV4) áleiðis upp á Krókháls. En þar sem ég ek í mestu makindum, og að ég held á löglegum hraða, norður Hofsvallagötu sé ég hvar strætó (sennilega leið 11) kemur eftir Hagamelnum. Þar sem biðskylda er á Hagamel við Hofsvallagötu hélt ég ótrauð áfram án þess að hægja ferðina, en þegar ég kem að Hagamelnum heldur strætó ótrauður áfram yfir götuna og ég hélt hreinlega að hann myndi koma inn í hliðina á mér. Mér tókst þó að sleppa með því að gefa í og sveigja aðeins en á eftir skalf ég og nötraði eins og strá í vindi. Þegar skjálftinn var rénaður greip mig alveg hrikaleg reiði. Hvað var maðurinn að hugsa? Fyrst ætlaði ég mér að hringja í Strætó og klaga þetta gerpi þegar ég kæmi heim - en þá mundi ég að ég hef einu sinni áður hringt í strætó og klagað bílstjóra og þá með þeim afleiðingum að maðurinn var rekinn. Reyndar var kvörtunin frá mér víst bara kornið sem fyllti mælinn. Þess vegna gerði ég auðvitað ekki neitt í málinu, en það breytir ekki þeirri staðreynd að um götur Reykjavíkur ekur brjálaður og stórhættulegur strætóbílstjóri sem getur stefnt fjölda manns í lífshættu. Ég skil ekki hvernig svona fífl fá yfirleitt bílpróf, hvað þá heldur meirapróf eins og þarf til að aka almenningsvagni! Og þar hafið þið það og hana nú!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?