miðvikudagur, ágúst 16, 2006

 

Fiskidagurinn mikli

Athyglisverð Akureyrarferð um síðustu helgi náði hámarki þegar við litum á Fiskidaginn mikla á Dalvík. Það var alveg ótrúlegt að vera þarna - ég get ekkert lýst því öðruvísi. Frábær matur, reyndar var ég sú eina úr hópnum sem fannst fiskivöfflurnar góðar. Og ég hreinlega slefaði þegar ég smakkaði hrátt hrefnukjöt á sushi-barnum hjá Úlfari, lagði leið mína þangað oftar en einu sinni. Gott framtak hjá Dalvíkingum og ótrúlegt hvað ég hitti marga sem ég þekkti héðan af höfuðborgarsvæðinu, greinilega fengu fleiri en við þá hugmynd að kíkja á herlegheitin.
Á heimleiðinni á sunnudaginn var komið við á Hólum, en þar var þá Hólahátíð og flest allt fyrirfólk landsins samankomið ásamt prestum og pólitíkusum - og auðvitað biskupum. Við töfðum því ekki lengi þar, fengum okkur bara að borða alveg frábæra kjötsúpu, skoðuðum Auðunarstofu og fornleifauppgröftinn og gátum troðið okkur aðeins inn í dómkirkjuna rétt áður en hátíðamessan byrjaði. Svo stönsuðum við aðeins á Sauðárkróki til að skoða ýmsar minjar og gripi sem fundist hafa við fornleifauppgröft í Skagafirði. Eftir það var haldið heim með smástoppi "Við árbakkann" á Blönduósi og svo keyptum við í kvöldmatinn í Borgarnesi.
Hef hamast við vinnu síðan ég kom heim og held hamaganginum áfram fram í næstu viku en þá verður kannski smámöguleiki á að komast að Búðum.
Meira um það seinna. Lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?