fimmtudagur, ágúst 03, 2006

 

Það rignir

Í dag rignir - en það er allt i lagi. Stundum verður að rigna og að undanförnu hefur veðrið verið upp á sitt besta svo það er engin ástæða til að kvarta núna. Sérstaklega af því að ég þarf að sitja inni og vinna. Það hafa nefnilega safnast að mér peningar að undanförnu og þá verð ég auðvitað svo gírug að ég segi ekki nei þegar mér bjóðast ný verkefni, mikið vill alltaf meira. En þetta er nú bara tímabundið, ég þarf að vera búin að skila þessu af mér um miðja næstu viku og sé ekki fram á annað en að það takist. Ég fór reyndar í klippingu og litun í dag og er nú hin glæsilegasta með ljósa blesu í hægri vanga og hvítan blett í hnakka mínum, Garún, Garún.
Rauðhyltingagleðin í Fannahlíð um síðustu helgi tókst með ágætum eins og vanalega - rúmlega 50 manns mættu og ég veit ekki betur en að allir hafi skemmt sér hið besta. Veðrið lék við okkur - það rigndi reyndar á tjöldin okkar á sunnudaginn (við vorum með tvö tjöld, eitt fyrir okkur og annað fyrir unglingana) svo við þurftum að hengja þau til þerris þegar við komum heim. Því miður kann svo að fara að þetta hafi verið í síðasta sinn sem við verðum í Fannahlíð. Eftir sameininguna er óvíst að húsið verði leigt út til samkomuhalds, það stendur víst til að þarna verði félagsmiðstöð fyrir unglinga og aldraða, en mér finnst nú að það mætti leigja húsið út á sumrin svona rétt til að fá eitthvað upp í viðhald. Og eins og Daníel, sonur minn, sagði þá fellur þessi gleðskapur okkar vel inn í þessa fyrirhuguðu starfsemi þar sem unglingar og aldraðir eru yfirleitt í meirihluta. Kannski ég hringi í nýja sveitarstjórann í Hvalfjarðarsveit og komi þessari skoðun á framfæri. Við sjáum nú til.
Annars er það af okkur að frétta að eiginmaðurinn er alger Lasarus þessa dagana. Hann á að fara í "grjótmulningsvélina" á Landsspítalanum (eða Mjölni eins og hún er kölluð) einhvern tíma um miðjan ágúst, en að undanförnu hefur hann verið að fá þursabit og alls kyns ónot og þau ekki lítil. Í dag gat hann sig varla hreyft, ég er hrædd um að hann sé með klemmda taug í bakinu. Vonandi lagast þetta í nótt, annars dríf ég hann til læknis á morgun. Við vorum einmitt að vonast til að komast að Búðum í næstu viku þegar ég verð búin með þessi verkefni, en við þorum hreinlega ekki að panta fyrr en honum fer að líða eitthvað skár. Hins vegar myndi hann hafa gott af tveggja daga dvöl á Búðum að drekka í sig kraftinn frá jöklinum - og líka kannski rauðvínslögg.
Meira þegar þar að kemur. Lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?