sunnudagur, ágúst 06, 2006

 

Salírólegur sunnudagur

Þar sem eiginmanninum er farið að líða betur ákváðum við hjónakornin, þrátt fyrir miklar annir hjá ykkar einlægri, að gera eitthvað skemmtilegt í dag. Við brunuðum þess vegna upp í Borgarnes að skoða Landnámssetrið og það olli sko engum vonbrigðum. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða, enda höfðum við heyrt að maturinn þarna væri frábær. Fiskréttur dagsins var saltfiskur með tómötum og ólífum sem hljómaði mjög girnilega en þar sem mig langaði ekki í stóran rétt svona í hádeginu og eiginmanninn langaði hreint ekkert í saltfisk enduðum við á því að panta pastarétti sem báðir voru framúrskarandi lystugir og góðir. Bóndinn pantaði tagliatelle með skinku í kryddjurtarjómasósu en ég fékk mér pasta (sem reyndist líka vera tagliatelle) í tómatbasilsósu. Reyndar sá ég að fólkið á næsta borði pantaði sér saltfisk og hann leit geysilega vel út. Prófa það kannski næst ef lystin verður meiri. Eftir matinn skoðuðum við báðar sýningarnar sem þarna eru og báðar eru listilega skemmtilega útfærðar. Það tekur hálftíma að fara í gegnum hvora fyrir sig og það verður að segjast eins og er að þessi klukkutími sem við vörðum í það var býsna fljótur að líða.
Við komum svo við á Akranesi á heimleiðinni að skila elsta bróður tjaldi og dýnu, en þau hjónin voru auðvitað ekki heima frekar en venjulega. Skildum dótið eftir á tröppunum hjá þeim í þeirri von að þau væru ekki farin burt í marga daga, enda hefðu þau varla skilið gluggana á jarðhæðinni eftir opna ef svo væri. Hringi í þau í kvöld og tékka á málinu.
Annað var það ekki núna. Lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?