föstudagur, nóvember 03, 2006

 

Gaman, gaman!

Haldið þið að ég sé ekki að fara til London bráðum? Við Ella ætlum að skella okkur í skemmtilega helgarferð 23. - 26. nóv. Ætli við verðum ekki bara uppi um alla veggi og súlur þar, allavega er á dagskrá að fara í leikhús, skoða antíkmarkaði og söfn - og vitaskuld að líta í verslanir, þótt ekki væri nema bara í nærbuxnadeildina í M&S. Þetta með söfnin hef ég reyndar ekki rætt við ferðafélagann en hún er yfirleitt til í allt svoleiðis. Ég hef ekki nema einu sinni komið í National Gallery og svo er hótelið okkar í Bloomsbury, rétt hjá British Museum - kannski lítum við á eins og eina deild þar. Hef einu sinni komið þangað og eyddi þá dagsparti í egypsku deildinni en sá varla helminginn. Og ekki man ég hvort það var þar eða í National Gallery sem mig langaði svo að stela klósettpappír. Á hann var nefnilega letrað: "Government property. Do not remove from the premises." Kjörin leið til að hvetja fólk til að stinga á sig rúllu - hver færi að stela venjulegum klósettpappír? Ég tékka á þessu. Og þó, kannski yrði mér stungið inn ef upp kæmist.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?