miðvikudagur, desember 27, 2006

 

Hátíðaskap

Ég hef verið í hátíðaskapi frá því á Þorláksmessu og hef hugsað mér að halda því áfram fram yfir áramót. Jólin eru að baki og þau voru hreint dásamleg, laus við allt stress og hamagang. Samverustund á aðfangadag með öllum barnabörnunum sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu og svo rólegheita jólamáltíð um kvöldið - og þvílík máltíð. Léttsteiktar rjúpnabringur bráðnuðu á tungunni með bragðmikilli villibráðarsósu, rauðkáli og sykurbaunum. Og þótt við værum bara tvö vorum við svo lengi að opna pakkana að yngri sonurinn hringdi áður en við vorum búin - við vorum reyndar með þann síðasta í höndunum. Og jólagjafirnar voru ekki af lakara taginu, ég ætla ekki að telja þær upp, en við höfum allavega nóg að lesa fram eftir vetri og getum hlakkað til sumarsins. Ég verð samt að segja frá pakkanum frá eiginmanninum - ég var margbúin að tala um hvað mig langaði í þokkalega stórt púsluspil og haldið þið að það hafi ekki einmitt komið púsluspil upp úr pakkanum, með mynd af fíl að sjálfsögðu. Fíllinn er reyndar á sundi og myndin er hryllilega erfið. En hvað um það, mér fannst svolítið skrýtið að það var búið að taka sellófanið utan af kassanum, svo ég lyfti lokinu og þá var annar, pínulítill pakki þar ofan í. Ég sem elska svona pínulitla pakka! Og upp úr honum kom þessi líka fallegi gullhringur, væri ekki betri þótt ég hefði valið hann sjálf! Púslið er hins vegar svo erfitt að ég verð sennilega fram á vorið að koma myndinni saman!
Hafið það nú sem allra best og friður sé með ykkur!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?