miðvikudagur, desember 20, 2006

 

Og jólin nálgast....

Nú fara jólin að skella á - hér hefur ekki verið tekið til eða þrifið í mánuð eða svo en í dag tókum við okkur til og héldum hreingerningadaginn mikla. Ég náði samt ekki að strjúka yfir gólfin, geri það bara á morgun. Það er allavega þokkalegt um að litast núna og ilmandi hreingerningalykt í íbúðinni.
Og haldið þið að tónleikarnir okkar hafi ekki fengið þessa fínu krítik í Mogganum. Flest kom prýðilega út, það var helst Ave Maria eftir Caccini sem var heldur knúsað í hljóðfæraútsetningunni (ekkert fundið að söngnum), en margt annað var frábært, eins og t.d. Slá þú hjartans hörpustrengi eftir Bach, sem var afar heillandi. Almennt var söngurinn sérlega vandaður, bæði tær og hljómmikill, undir markvissri stjórn Margrétar. Hvað viljið þið hafa það betra?
En þá er það Oslo Gospelkor. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum - ekki með sjálfan sönginn heldur pirraði það mig að þau skyldu öll syngja í hljóðnema. Hljómburðurinn er það góður í Grafarvogskirkju að það er alger óþarfi fyrir svona kór að vera með rafmagnað hljóðkerfi og það hreinlega skemmdi fyrir. Kórinn tók tvö lög a capella í boðinu hjá norska sendiherranum og þar var augljóst að söngvararnir standa fyrir sínu og vel það. Sem sagt, góður kór en frekar misheppnaðir tónleikar. Og ég skildi heldur ekki af hverju stjórnandinn kynnti allt á fremur bjagaðri ensku heldur en að tala bara norsku, sem flestir hefðu líklega skilið alveg eins vel, ef ekki betur.
En ég ætla ekki að jagast meira, jólin fara að skella á og alger óþarfi að vera að pirrast eitthvað. Þessa aðventu hef ég sótt þrenna tónleika (og sungið á tvennum að auki) sem verður að teljast býsna gott, ég er að hugsa um að halda þessum aðventusið áfram. Miklu meira uppbyggjandi en búðarráp. Og svo er ég búin með jólagjafakaupin og ég held að allir verði ánægðir með sitt.
Veit ekki hvort ég blogga meira fyrir jól svo ég bið ykkur bara Guðsblessunar yfir hátíðarnar.
Amen.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?