laugardagur, desember 23, 2006

 

Þorláksmessukvöld

Það er komið Þorláksmessukvöld og allt er tilbúið fyrir jólin. Íbúðin komin í jólaskartið og við, hjónakornin, búin að fá hangiketsflís með tilheyrandi meðlæti. Jólatréð í stofu stendur, reyndar glampar ekki á neina stjörnu en Borgarnesengillinn er á sínum stað. Ekkert eftir annað en að pakka fáeinum gjöfum til barnabarnanna og koma þeim til þeirra. Væntanlega koma Ísold og Númi með okkur til Huldu á morgun, mér heyrðist í dag að þau vildu það öll. Og við erum ekki lengur bara tvö á heimilinu, jólakötturinn mætti á fimmtudagskvöldið. Ekkert skrímsli sem ætlar að éta okkur ef við fáum ekki nýja flík heldur Kisa litla, sæta, sem kúrir núna í sófanum og stendur öðru hvoru upp til að nudda sér utan í okkur. Hún verður sem sagt hérna hjá okkur fram yfir áramót á meðan eldri sonurinn er með sinni heittelskuðu austur á Egilsstöðum - það er auðvitað ekki slæmur staður til að eyða jólum og áramótum á.
Annað er það ekki í bili. Gleðileg jól, þið sem þetta lesið!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?