sunnudagur, apríl 01, 2007

 

Húrra Hafnarfjörður!

Hafnfirðingum bar gæfa til að kjósa gegn stækkun álversins. Hins vegar er það ofvaxið skilningi mínum að 6294 Hafnfirðingar hafi kokgleypt hræðsluáróðurinn sem Alcan lét dynja yfir bæjarbúum síðustu vikurnar. Ég hélt að þeir myndu líta til nágrannans, Reykjanesbæjar, sem átti að fara í eyði þegar herinn færi, en blómstrar nú sem aldrei fyrr þótt mörg hundruð manns hafi misst vinnuna hjá hernum. Málið var einfaldlega að þar brettu menn upp ermarnar, sneru vörn í sókn og búin voru til ný störf eða fólki útveguð önnur vinna. Og það var ekki eins og Alcan ætlaði að loka sjoppunni í hrauninu strax í dag ef stækkuninni væri hafnað, verksmiðjan mun starfa í tíu til tuttugu ár enn, enda þriðja stærsta verksmiðja fyrirtækisins í Evrópu. Væri nú ekki ráð að hugsa fram í tímann? Hvernig vilja Hafnfirðingar hafa bæinn að tíu árum liðnum? Enn og aftur til hamingju, þið 6382 sem björguðuð bænum ykkar!

Og svo ég snúi mér aðeins að væntanlegum alþingiskosningum. Ég er, og hef alltaf verið, á móti framboðum sem hafa bara eitt baráttumál eins og aldraðir og öryrkjar og Íslandshreyfingin. Gott dæmi um slíkan flokk er Frjálslyndi (afturhalds-) flokkurinn sem á sínum tíma var stofnaður vegna óánægju með kvótamálið, sem allir nema ráðherrarnir sáu hversu banalt var fyrir landvinnufólk og sjómennina sem sjá um að veiða fiskinn í sjónum. En nú virðist sá ræfils- flokkur hafa gleymt upphafi sínu og fundið sér nýtt baráttumál - andstöðu gegn innflytjendum. En ef stefnumál þeirra, takmörkun á fjölda innflytjenda, nær fram að ganga verða þeir að vera rosalega duglegir að geta börn og koma þeim til manns á tvöföldum eða þreföldum hraða ef innfæddir, ljóshærðir og bláeygðir Íslendingar eiga að geta sinnt öllu sem gera þarf í þjóðfélaginu. Jæja, þetta með ljóshærða og bláeygða Íslendinga er kannsi fullsterkt til orða tekið hjá mér en mér finnst ýldukeimurinn ansi sterkur af málflutningi þeirra. Annars er mitt vandamál í kosningunum að ég treysti engum stjórnmálaflokki til að hlaupa ekki í eina sæng með íhaldinu að kosningum loknum, jafnvel ekki VG. Annars væri skárra að fá þetta stóran flokk til að stjórna með íhaldinu, það væri þá ekki hægt að kúga hann vegna smæðarinnar eins og gert hefur verið með Framsókn í þessu fjandans samstarfi, sem einfaldlega er ættað úr því neðra!

En ekki meira raus í bili, stjórnmál fara hreint yfirþyrmandi mikið í taugarnar á mér þessa dagana og ég kvíði tímanum fram að kosningum. Vinkonur mínar eru nefnilega svo svakalega pólitískar að þær æpa og garga á mig þegar ég er ekki sammála þeim í aðdáuninni á Samfylkingunni - sem er farin að minna mig óþægilega á Framsóknarflokkinn í gamla daga, opin í báða enda og svarar já, já og nei, nei við öllu sem spurt er að.

Og enn og aftur, gleðilega páska og megi sól og sæla umlykja ykkur fram að kosningum - og jafnvel eftir þær líka.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?