föstudagur, apríl 13, 2007

 

So It Goes

Kurt Vonnegut jr. er allur, blessaður karlinn. Fyrstu kynni mín af honum sem rithöfundi voru þau að ég var að lesa einhverja ameríska kilju sem fjallaði um hóp af ráðvilltum krökkum og þeim var tíðrætt um einhvern Kurt Vonnegut jr., sem ég hafði aldrei heyrt getið um og hélt í sakleysi mínu að væri bara tilbúið nafn hjá höfundi bókarinnar. Ég man reyndar ekki lengur hvaða bók þetta var eða eftir hvern. Nú, jæja, dag einn er ég stödd í bókabúð sem þá var í Bankastræti að leita mér að léttri lesningu og rekst ég þá ekki á bókina Player Piano eftir Kurt Vonnegut jr. Það þarf ekki að orðlengja það að ég keypti hana og las í einum spreng og varð ekki fyrir vonbrigðum. Eiginmaðurinn varð líka jafn hrifinn og eftir það var Kurt Vonnegut jr. í hávegum hafður á heimilinu og hillumetrarnir sem hann tók í bókaskápnum lengdust stöðugt. Ég held reyndar að enginn rithöfundur hafi haft eins afgerandi áhrif á lífsviðhorf mitt, kannski hef ég bara verið svona seinþroska en ég mótaðist mest á aldrinum 25 til 35 ára. Allavega finnst mér ég þá hafa myndað mér flestar skoðanir sem mér finnst réttar enn í dag.
Og svo kom að því árið 1987 að hér var haldin bókmenntahátíð og haldið þið ekki að þar hafi mætt til leiks sjálfur Kurt Vonnegut. Því miður var ég upptekin í vinnu og komst ekki til að hlusta á hann, en meðan á bókmenntahátíðinni stóð var auglýst að gúrúinn áritaði bækur sínar í Eymundson í Austurstrætinu. Ég bað eiginmanninn lengstra orða að taka nú bækurnar og hitta mig niður í Austurstræti þegar stundin rann upp - mig minnir meira að segja að ég hafi stolist of snemma úr vinnunni til að missa ekki af þessu. Þegar ég mætti svo við Eymundson brá mér dálítið í brún því þar var löng biðröð fyrir framan meistarann og svo hafði bóndinn bara gripið með sér tvær eða þrjár bækur sem mér fannst ekki ná nokkurri átt. Ég brenndi því heim og sópaði bókunum úr hillunni ofan í kassa og ók beint niður í bæ aftur. Loksins kom svo röðin að mér. Ég tíndi bækurnar upp úr kassanum, meistarinn leít á mig og ég sá ekki betur en að hann glotti. Hann áritaði kiljurnar ósköp ljúflega og setti * (asshole) við á sinn sérstaka hátt. Svo spurði hann hvers vegna í ósköpunum ég væri með allar þessar kiljur, af hverju ég keypti ekki hard cover bækur. Kiljurnar væru ómögulegar, þær dyttu úr límingunni og svo týndust úr þeim síður og fleira og fleira. Það kom svolítið á mig, en svo stundi ég upp að þá hefði ég hreinlega ekki efni á að kaupa allar bækur sem kæmu út eftir hann og þá brosti hann út að eyrum. Eftir það spjölluðum við kurteisislega í svo sem hálfa mínútu, ég tíndi bækurnar aftur upp í kassann og sneri hæstánægð heim. So It Goes.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?