þriðjudagur, ágúst 21, 2007

 

Ferðasaga - síðari hluti

Best að halda ferðasögunni áfram áður en allt saman gleymist.

Dagur 5: Íslendingadagurinn.
Lagt af stað í býtið áleiðis til Gimli. Við hjónin létum samt rútuna bíða eftir okkur í 10 mínútur svo við gætum fengið okkur tvöfaldan espressó á Starbuck til að taka með - merkilegt að vestanhafs virðist ekki vera hægt að laga venjulegt kaffi sem bragð er að.
Til Gimli var ekki komið fyrr en "pareidið" var lagt af stað svo við sáum ekki herra Haarde og frú veifa til mannfjöldans. Reyndar frétti ég ekki fyrr en allt var afstaðið að ákveðin, einkar stjórnsöm kona þarna vestanhafs, hefði viljað láta The Red Hill Gang þramma á eftir bíl forsætisráðherrans! Eins gott að það kom aldrei til umræðu því ég hefði harðneitað því. En það var mikil upplifun að sjá þetta allt saman og þegar herlegheitunum lauk fórum við í garðinn þar sem skemmtiatriðin og sölutjöldin voru. Þetta voru auðvitað mikil hátíðahöld og margt skemmtilegt að sjá og heyra. Reyndar heyrðum við bara í Kirkjukór Húsavíkur og ræðu fjallkonunnar. Ætluðum reyndar líka að hlusta á Geir Haarde en það voru svo margir á undan honum að við ákváðum að labba aðeins út fyrir svæðið og niður að vatninu - sem er hreint ótrúlega stórt, rétt eins og úthaf. Þegar við komum svo til baka var Haarde búinn að tala og hafði honum víst bara mælst vel. Það skyggði svolítið á daginn að Ida frænka fékk aðsvif og var flutt á sjúkrahús. Þarna á hátíðinni voru ýmis sölutjöld og fólk að falbjóða varning en það merkilegasta sem ég keypti voru tvær bækur sem ég fékk áritaðar af höfundunum. Önnur var byggð á sögu ísknattleiksliðins fræga, Fálkanna, og höfundurinn áritaði hana fyrir mig handa Ísold. Hitt er ástar/spennusaga - Secrets Found in Gimli - og mér og höfundinum varð einkar vel til vina. Sagan er reyndar talsvert furðuleg en alls ekki leiðinleg og ég er hæstánægð með kaupin. Við stöldruðum við á Rauðholti áður en farið var heim að leita frétta af Idu. Sem betur fer hafði þetta ekki reynst alvarlegt og hún átti að fá að fara heim strax um kvöldið. Börnin hennar, þau Randy, Elaine og Richie voru kvödd með virktum og væntingum um að hittast aftur austur á héraði að tveimur árum liðnum. Þegar heim á hótel var komið vorum við hjónin svo lurkum lamin eftir alla gönguna og útiveruna að við treystum okkur ekki úr húsi og borðuðum því á veitingastaðnum á hótelinu. Maturinn var með afbrigðum góður og þjónninn sem þjónaði okkur einkar elskulegur og vildi allt fyrir okkur gera. Ef ég hefði beðið hann að halda á okkur upp á herbergi og hátta okkur hugsa ég að hann hefði gert það! Eins og endranær var afar gott að leggjast á koddann.

Dagur 6:
Þessi dagur var frjáls í Winnipeg en Jerry okkar var svo elskulegur að aka með okkur í stóra verslunarmiðstöð talsvert frá miðbænum og sem sannir Íslendingar þáðum við það að sjálfsögðu. Sitt hvað var keypt og þegar við vorum spurð hvaðan við værum og svöruðum að við værum frá Íslandi hefði mátt halda að við værum kóngafólk, eða minnsta kosti af aðalsættum. Íslendingar eru greinilega í hávegum hafðir á þessum slóðum. Seinnipartinn var litið í verslanir sem voru nær hótelinu og gerð góð kaup þar á ýmsum varningi. Ég fer ekkert að telja upp hvað við keyptum eða hvað við borðuðum, ég man ekki einu sinni lengur hvar við snæddum kvöldverð eða með hverjum. Kannski í þriðja skipti á Pasta la Vista - en ég held samt ekki.

Dagur 7:
Elaine kom að kveðja okkur í hádeginu og eftir það fór megnið af hópnum og borðaði hádegisverð (hlaðborð að sjálfsögðu) í veitingahúsi á 30. hæð sem snerist í hringi svo við fengum gott útsýni yfir borgina. Það var prýðilega skemmtilegt og ágætur matur. Að snæðingi loknum stungum við hjónin af til að fara aftur á Manitoba Museum - og ég verð að stæra mig af því að ég fór í utanáliggjandi lyftu ofan af 28. hæð og það var bara hreint ekkert voðalegt. Eftir heimsóknina á safnið kíktum við meira í búðir en svo fór allur hópurinn saman og borðaði kvöldverð á stað sem heitir The Round Table og er í eigu Íslendings. Ég verð því miður að segja að maturinn var ekki eins góður og ég hafði vonast til og líklega var þetta dýrasta máltíð ferðarinnar. En þetta var þrælgaman og ekkert til að kvarta yfir.

Dagur 8:
Lagt af stað eftir morgunverð og ekið yfir til Bandaríkjanna. Þar var farið um ýmsar Íslendingabyggðir, við keyptum okkur nesti og borðuðum það á mjög skemmtilegu landnemasafni í The Icelandic State Park. Ýmislegt sem ég sá þar minnti mig á hluti sem til voru heima þegar ég var að alast upp svo sem skilvinda, ullarkambar, rokkur og margt fleira. Svo var ekið áfram og komið við í Mountain sem er eiginlega bara smáhæð - lægri en Himmelbjerget! Komið var til Grand Forks undir kvöld og þegar við höfðum komið okkur fyrir á herbergjunum ók Jerry okkur á veitingastað (með hlaðborði að sjálfsögðu) þar sem við snæddum saman kvöldverð. Staðurinn var í verslanamiðstöð svo við gátum aðeins skoðað í búðir og eiginmaðurinn keypti sér Movie Guide.

Dagur 9:
Ekið áleiðis til Minneapolis. Nú tók landslagið að verða aðeins fjölbreyttara, ekki eintómir akrar heldur tjarnir, bóndabæir, smáþorp og skógar. Og, mikið rétt, ein og ein smábrekka eða laut. Ein frænkan hafði verið svo forsjál að benda á að klukkutíma áður en við kæmum til Minneapolis væri staður sem héti Albertville og þar væri stærsta "outlet" í heimi. Og það var auðvitað ákveðið á stundinni að þar yrði áð um hríð. Maður minn, hvílík verslunarunaður! Við hjónin slepptum okkur alveg og keyptum svo mikið að á endanum urðum við að kaupa okkur tösku undir góssið! Hann keypti sér skó og ég stígvél og svo keyptum við jólagjafirnar handa barnabörnunum og ég veit ekki hvað og hvað. Komum svo til Minneapolis undir kvöld eins og áætlað var, en heldur var hótelið þar óhrjálegt. Í útjaðri borgarinnar (St. Paul) og þar var hvorki bar eða veitingahús. Skammt frá var íþróttabar og þar borðaði hópurinn um kvöldið. Maturinn var ekki slæmur en staðurinn stórfurðulegur og hrikalegur hávaði. Eftir matinn sátum við hjónin þar áfram með Indu og Möggu og fengum okkur drykk en öll fórum við frekar snemma í rúmið.
Um nóttina gerði hrikalegt þrumuveður með eldingum - ég rumskaði bara aðeins og sofnaði svo aftur, en einn frændinn hafði aldrei séð eldingar áður og vakti víst við herbergisgluggann góða stund. Fyrir mann sem var að sjá eldingar í fyrsta sinn var þetta líklega eins og glæsilegasta flugeldasýning.

Dagur 10:
Að morgunverði loknum gengum við aðeins út fyrir og sáum að stór grein hafði rifnað af tré beint á móti hótelinu í óveðrinu um nóttina. Allir ætluðu í The Mall of America en við vorum ekki með rútuna þennan dag svo við urðum að láta okkur nægja að fara í þremur hópum með hótelskutlunni. Eiginmaðurinn ætlaði að kaupa hugbúnað í tölvuna svo það fór smátími hjá okkur í að athuga þann möguleika, en þökk sé frábærum leigubílstjóra tók það styttri tíma og kostaði okkur minna en ætla hefði mátt að komast að því að það var ekki hægt. Blessaður maðurinn ók okkur þess vegna bara aftur í mollið og þar var margt að sjá og skoða. Ég var ákveðin í að fara í Victoria's Secret og Aveda en annað var ekki ákveðið. Þrátt fyrir það tókst okkur að eyða þarna öllum deginum og talsverðu af peningum og vorum með þeim síðustu sem skiluðu sér heim á hótel.
Síðasti sameiginlegi kvöldverðurinn svar snæddur á virkilega skemmtilegum stað og maturinn var ágætur. Hótelskutlan ók okkur nokkrum þangað en hin þurftu að ganga. Þegar þau voru að koma að staðnum byrjuðu nokkrir regndropar að falla og þau tóku til fótanna yfir grasflötina framan við veitingahúsið. Þá vildi ekki betur til en að úðunarkerfið fór einmitt í gang og sum þeirra komu holdvot inn á staðinn! En það var hlegið nóg, borðað og drukkið áður en gengið var til náða.

Dagur 11:
Að morgunverði loknum pökkuðum við niður og fórum svo í smágönguferð um næsta nágrenni - sem var frekar ömurlegt. Jerry okkar blessaður kom á rútunni klukkan tólf til að fara með okkur í skoðunarferð um borgina. Minneapolis er að mörgu leyti falleg borg og miðbærinn þar virtist ótrúlega skemmtilegur með litlum búðum og útiveitingahúsum. Það hefði sko verið einhver munur að vera á hóteli þar heldur en þessum útnára sem við vorum sett á! Sumir skýjakljúfarnir þarna eru glæsilegar byggingar með listrænum arkitektúr. Við sáum líka brúna sem hrundi, það var dapurleg sjón. Jerry fór auðvitað með okkur á veitingahús í hádegisverð svona í síðasta sinn, en merkilegt nokk var það ekki hlaðborð. Samkvæmt beiðni var svo stansað við súpermarkað en þar keypti ég bara uppþvottabursta, tvo pakka af kökumixi og tvær dósir af exótískum sveppum. Síðan var farið út á flugvöll. Eftir venjulegt vesen við innskráninguna biðum við í smátíma þar til við fórum út í vél. Flugvöllurinn þarna er frekar lítill og miklu viðráðanlegri en Leifsstöð! Ég steinsvaf og hraut hástöfum á leiðinni heim en samt var ég frekar slæpt þegar heim á Tjarnarból var komið um níuleytið á mánudagsmorgni.

Og læt ég þá ferðasögunni lokið.
Hafi einhver leiðréttingar á henni fram að færa er þeim tekið með þökkum.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?