sunnudagur, september 23, 2007
Hugleiðing um leikskóla
Nú er mikið rætt um mannekluna á leikskólunum og í framhaldi af því einkarekna leikskóla. Ein tillagan er að fyrirtæki setji á stofn leikskóla fyrir börn starfsfólksins - Leikskóli Baugs, Leikskóli Landsbankans, Leikskóli Kaupþings o.s.frv. Þegar ég heyri þetta dettur mér alltaf í hug ákveðið atvik. Þannig var að fyrir rúmum fjörutíu árum fórum við hjónin í skoðunarferð um Carlsberg-verksmiðjurnar í Kaupmannahöfn þar sem við vorum leidd í allan sannleika um bruggun bjórs, allt frá því að lagt er í kornið og þar til bjórinn er tilbúinn í flöskunni, og svo var að sjálfsögðu veitt vel af framleiðslunni. Og þótt það hafi kannski ekki verið beinn hluti af framsleiðsluferlinu var okkur líka sýndur leikskóli sem fyrirtækið rak fyrir starfsfólkið. Það fyrsta sem mér datt í hug var að þarna væri verið að ala upp næstu kynslóð verkafólks fyrir Carlsberg. Auðvitað sé ég núna að þetta voru bara mínir eigin fordómar og þarna hafa ugglaust verið við stjórn lærðir leikskólakennarar (eða fóstrur eins og það hét þá), börnunum trúlega liðið vel í þroskandi umhverfi og þetta hefur verið til mikilla hagsbóta fyrir foreldrana. Kannski er ekkert barnanna sem ég sá þarna við vinnu í verksmiðjunni núna og kannski vinna einhver þeirra þar og líkar vel, ekki síst að hafa örugga gæslu fyrir börnin sín.
Það sem ég vildi sagt hafa er, að til að mynda mér skoðun á hvort rétt sé að fyrirtæki reki leikskóla fyrir börn starfsfólks þyrfti ég að fara í aðra skoðunarferð til Carlsberg.
Það sem ég vildi sagt hafa er, að til að mynda mér skoðun á hvort rétt sé að fyrirtæki reki leikskóla fyrir börn starfsfólks þyrfti ég að fara í aðra skoðunarferð til Carlsberg.