þriðjudagur, nóvember 27, 2007

 

Þéttskipuð dagskrá

Ég afréð að sleppa sturtunni í morgun. Eiginmaðurinn átti von á Valda, samstarfsmanni sínum, upp úr klukkan níu til að fara yfir verkin frá því í gærkvöldi og ég ákvað að drífa mig á fætur og sleppa sturtunni í stað þess að kúra í rúminu þar til gesturinn hefði kvatt. Jú, jú, Valdi kom og skoðaði það sem tölvan vann í gærkvöldi, fékk sér kaffi með okkur, kvaddi og fór. Svona tíu mínútum seinna hringdi gemsi eiginmannsins og að sjálfsögðu héldum við að það væri fyrrgreindur Valdi, en haldið þið að það hafi þá ekki verið langþráður pípari að boða komu sína. Þannig er mál með vexti að fyrir hartnær tveimur mánuðum keyptum við ný og flott blöndunartæki ásamt sturtu á baðið og þar sem ég á einkar vandvirkan og varkáran eiginmann vildi hann ekki vesenast í því sjálfur að skipta um tæki, ef hann skyldi nú gera eitthvað vitlaust. Var nú hafist handa við að hafa uppi á pípara sem gæti skotist til okkar og skipt um tækin en það var sko ekki einfalt mál. Sá fyrsti sagðist ekki hafa tíma fyrr en eftir áramót (allavega hreinskilinn sá), sá næsti lofaði að koma strax í næstu viku en er ekki farinn að láta sjá sig enn þá, næsti ætlaði að koma eitt kvöldið en lét ekki sjá sig, en á endanum fékk bóndinn nafnið á enn einum og hringdi í hann fyrir síðustu helgi. Sá sagðist geta komið "mjög fljótlega" og við brostum bara út í annað og héldum áfram að horfa á blöndunartækin og sturtuna sem staðið hafa hér á ganginum í nokkrar vikur. En sem sagt, þessi öðlingur er nú mættur á svæðið og væntanlega get ég smellt mér í nýju sturtuna seinna í dag áður en ég fer á kóræfingu.

Annað er það af okkur að segja að það hafa verið stanslaus partí að undanförnu, núna síðast var nóvemberfestin (festið?) á laugardaginn og ættmenni létu ekki á sér standa að mæta. Maturinn var frábær og stemmingin eins og best er á kosið. Við hjónin ásamt sonarsyninum fórum reyndar heim upp úr miðnættinu (elsti sonarsonurinn var hjá gömlu hjónunum yfir helgina) en þau hraustustu voru að til klukkan að verða þrjú um nóttina. Upp úr hádeginu á sunnudaginn mættum við frænkurnar svo til að ganga frá húsnæðinu, vaska upp og svoleiðis. Það gekk bara prýðilega vel, enda fólkið engir sóðar. Þessi salur, Félagsheimili Flugmálastjórnar við Nauthólsvíkina, er alveg rosalega fínn og ég vona svo sannarlega að við getum leigt hann oftar til hátíðahalda í framtíðinni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?