mánudagur, desember 17, 2007

 

Hégómi

Á aðventunni fyrir ansi hreint mörgum árum, þegar yngri sonur minn hefur verið svona fjögurra eða fimm ára gamall, var honum mikið í mun að gefa móður sinni eitthvað fallegt og þráspurði hvað ég vildi fá í jólagjöf. En eins og svo oft var það ekkert sérstakt sem mig langaði í, ég vissi að ég fengi trúlega einhverjar forvitnilegar bækur og hlakkaði til að slaka á yfir hátíðisdagana við lesturinn. Svo þar af leiðandi svaraði ég yfirleitt: "Bara einhvern hégóma, elskan mín." Dagarnir liðu og jólin nálguðust og þar kom að eiginmaðurinn hélt í bæinn með synina svo þeir gætu keypt jólagjöf handa mér. Hann vissi auðvitað í hvers konar búðir væri réttast að fara og þegar feðgarnir stíga inn í stóra snyrtivörubúð í Austurstrætinu kemur afgreiðsludama á móti þeim og spyr hvað hægt sé að gera fyrir þá. Áður en bóndinn gat komið upp orði var sá litli fjótur að bera upp erindið. "Við ætlum að fá einhvern hégóma handa mömmu." Þetta vakti víst mikla athygli allra viðstaddra og jólagjöfin mín í þetta sinn var stórt glas af uppáhaldsilmvatninu mínu þá, L'air de Temps frá Ninu Ricci. Það var vissulega hégómi sem mér þótti vænt um.
Það skal tekið fram að þótt drengurinn sé nú kominn á fertugsaldur er hann enn býsna naskur að finna einhvern hégóma handa mömmu sinni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?