laugardagur, desember 29, 2007

 

Milli jóla og nýárs

Mér finnst tíminn milli jóla og nýárs alltaf svolítið skrýtinn, svona þegar tvær hátíðir ná saman, eða önnur hátíðin fellur inn í hina, því jólunum lýkur auðvitað ekki fyrr en á þrettándanum.
En jólin voru auðvitað yndisleg eins og alltaf, málið er að vera ekki með neinar væntingar, jólin koma nefnilega innan frá hvað sem er í matinn og hverjar svo sem gjafirnar eru. Það var gott að eyða aðfangadagskvöldi með fjölskyldunni og það var líka gott að koma heim um miðnættið og hella sér út í lestur. Ég fékk nefnilega bækur í jólagjöf og þar að auki snyrtidót - en rúsínan í pylsuendanum var grísinn syngjandi sem ég fékk frá jólasveininum - eða öllu heldur eiginmanninum. Hann situr núna á borðstofuborðinu og einu sinni á dag syngur hann fyrir mig "My Girl" með undurljúfri svínsröddu.
Og nú eru áramótin á næsta leiti, við erum búin að viða að okkur því sem við þurfum með villibráðinni og nú taka við vangaveltur um matreiðsluaðferð. Ég hallast að því að marinera hreindýravöðvann í olíu og jurtakryddi í fáeina tíma, brúna aðeins á pönnu og stinga svo í ofninn.
Sem sagt, við á Tjarnarbóli ætlum að taka nýja árinu opnum örmum en ég er alveg hætt að heita neinu um áramótin - er ekki málið bara að reyna eftir bestu getu að vera almennileg manneskja?

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?