sunnudagur, janúar 06, 2008

 

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár, kæru vinir og ættingjar til sjávar og sveita!
Vonandi ber nýja árið margt gott í skauti sér, en eftir svona frábært ár eins og 2007 verður erfitt að toppa það. Auðvitað er margt í bígerð á nýju ári sem væntanlega verður skemmtilegt og jafnvel ógleymanlegt, en það er aldrei að vita hvað framtíðin færir manni og best að vita sem minnst - eða þannig.
Jólin og áramótin á þessu heimili liðu í friði og ró með fjölskyldunni eins og vera ber og maður er svona rétt að komast í hversdagsgírinn á ný. Eiginmaðurinn þvertók fyrir að við tækjum jólaskrautið og ljósin niður í dag, það skal fá að standa út jólin. Gott mál.
Nú get ég upplýst að þann 14. júní n.k., ef Guð lofar, mun ég standa á sviði Carnegie Hall í New York, ásamt ég veit ekki hve mörgum fleiri, og taka þátt í flutningi á Carmina Burana undir stjórn Garðars Cortes (eldri auðvitað). Æfingar munu hefjast fljótlega og ég hlakka mikið til. Ég vona bara að þær byrji ekki fyrr en við hjónin erum komin til baka frá Tenerife, en það fer að styttast í ferðina þangað. Það verður ansi mikið að gera hjá mér þar til við förum, verst að ég er orðin svo skrambi löt eftir öll þessi rólegheit.
Vafalaust verður eitthvað fleira skemmtilegt á dagskrá hjá mér á komandi ári, svo sem ferðalag um Strandir, en mér finnst þetta alveg nóg í bili. Frá öðrum uppákomum verður skýrt þegar og ef til þess kemur.
Góðar stundir.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?