laugardagur, janúar 26, 2008

 

Nóg boðið...

Mér er gersamlega nóg boðið núna. Ekki má maður bregða sér út fyrir landsteinana í fáeina daga svo ekki verði allt vitlaust heima á Fróni. Við komumst reyndar aðeins á netið þarna úti og sáum meðal annars að Bobby Fisher væri dáinn og einhverjir snillingar vildu að hann yrði jarðsettur í þjóðargrafreitinum á Þingvöllum. Næstu fréttir sem við fengum voru svo um nýja borgarstjórann og brallið í kringum hina hljóðu hallarbyltingu í Ráðhúsinu. Ég verð að segja að mér finnst sá nýi hreint ekki gæfulegur og svo á Villi að taka við af honum eftir árið. Hverju skyldi honum þá takast að klúðra? En þar sem alþjóð var svo eftirminnilega sýnt fram á minnisleysi téðs Villa fyrir þremur mánuðum er, held ég, nokkuð ljóst að hann er búinn að steingleyma því að hafa nokkurn tíma klúðrað nokkru í borgarmálunum. Annars var hann hinn besti drengur í gamla daga, mig uggir hreinlega að elliglöp séu tekin að hrjá hann. Fyrsta embættisverk borgarstjórans var svo að kaupa kofana á Laugaveginum fyrir hálfan milljarð eða svo - var ekki sagt að kaupverðið yrði ekki gefið upp? En það hlýtur þó að koma fram í ársreikningum borgarinnar þegar þeir verða lagðir fram á næsta ári. Og svo er Bingi hættur í stjórnmálum blæðandi á bakinu. Ég verð nú að segja að mér finnst ekkert merkilegt og engum koma við þótt kosningasjóður Framsóknar hafi keypt á hann jakkaföt fyrir kosningabardagann og reyndar ekki á hann einan, fleiri fengu sömu meðferð, en trúlega ekki sá sem kastaði fyrsta steininum. Ef menn vilja að frambjóðendur gangi þokkalega til fara finnst mér þetta bara sjálfsagt mál - á kannski æskilegur frambjóðandi að neita því að taka sæti ofarlega á lista af því að hann á bara gallabuxur og boli og hefur ekki efni á að kaupa sér jakkaföt? Ekki svo að skilja að ég haldi að Bingi hafi ekki verið í þokkalegum efnum.
Mikið lifandis ósköp er ég fegin að búa á Seltjarnarnesi þótt hér hafi íhaldið verið við völd lengur en elstu menn muna. Maður veit þó altént að hverju maður gengur.

Annars var frábært að vera á Tenerife, verst að lenda nokkra daga í fjandans sandstormi frá Sahara - reyndar olli sandurinn okkur engum óþægindum en mistrið sem fylgdi var leiðinlegt. Og það var ekki norðanstrekkingur eins og hér heima, við gátum farið í gönguferðir, setið á útikaffihúsum í hlýrri golunni og spókað okkur léttklædd. Staðsetningin á hótelinu var frábær, maður gekk beint út í iðandi mannlífið á götunni. Íbúðin var rúmgóð og indæl, vel búin húsgögnum, leirtaui og þess háttar, en ég held að í henni hafi verið einhver slæðingur því erfiðari og meira krípí draumfarir hef ég aldrei á ævinni haft - veit reyndar ekki í einu tilfellinu hvort heldur ég var sofandi eða vakandi eða kannski á milli svefns og vöku. En ekki meira um það, hér á Tjarnarbóli er enginn slæðingur og nú þarf ég að fara að koma mér í vinnugírinn.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?