sunnudagur, janúar 13, 2008

 

Sunnudagsblús og sófasett

Það er ekki gott að hafa of mikið að gera en leiðinlegt að hafa ekkert fyrir stafni eins og raunin hefur verið í dag. Við byrjuðum daginn að sjálfsögðu í Sundlaug Seltjarnarness (og sturturnar eru ekkert að lagast, ýmist of heitar eða of kaldar) og svo lagðist bóndinn í sjónvarpsáhorf og ég fletti blöðunum. En svo tókst okkur að rífa okkur upp og brunuðum í Hafnarfjörð og sáum sýninguna sem er í Hafnarborg. Hún var afar fjölbreytt og skemmtileg og ég mæli alveg hiklaust með að fólk drífi sig í Fjörðinn og skoði menninguna. Kaffistofan í Hafnarborg var lokuð og hafnfirski vinurinn ekki heima svo kaffilaus yfirgáfum við plássið en síðan datt okkur í hug að kíkja í Smáralindina og fá okkur kaffi þar. Eftir smárölt um staðinn var komið að kaffihúsinu en þá var svo löng biðröð þar að við nenntum ekki að bíða og fórum heim án kaffis. Nú er spurningin bara hvort ég nenni að laga kaffi eða láti það einfaldlega vera - er ekki bara ágætt að sleppa öllu kaffiþambi?

Ég var víst aldrei búin að nefna að við hjónin smelltum okkur á nýtt sófasett (3+2) á mánudaginn var - fengum súpergóðan díl í Pier. Nú er það gamla komið í Sorpu en það nýja skreytir stofuna svo ljómandi fallega að hún lítur næstum út eins og stássstofa hjá fínu fólki. Við þurfum líka reyndar að kaupa okkur borð við það, gömlu borðin eru orðin svo óttalega illa farin, en það bíður þar til við höfum sleikt sólina á Tenerife og erum komin aftur heim í kuldann.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?