miðvikudagur, febrúar 06, 2008

 

Saltkjöt og baunir, túkall!

Mikið rosalega var gott að fá saltkjöt og baunir þegar ég kom heim af kóræfingu klukkan að verða níu í gærkvöldi. Og eiginmanninum tókst að hafa þær fullkomnar. Þetta voru einfaldlega bestu baunir sem ég hef fengið í mörg ár og ég er strax farin að hlakka til sprengidagsins að ári liðnu, enda borðaði ég næstum því yfir mig. En bolludagur og sprengidagur eru að baki og nú tekur við fiskur og grænmetisfæði fram á vor! Eða þannig.
Það var stuttur fundur eftir kóræfinguna í gær með New York förunum og við fengum nóturnar að Carmina Burana. Fyrsta æfingin verður á sunnudaginn kemur og ég hlakka mikið til, það er ótrúlega gaman að fást við svona erfitt verkefni og tilhlökkunarefni að fá að flytja það í Carnegie Hall á sumri komanda, nánar tiltekið 14. júní næstkomandi.
Og nú fer kuldanum víst að linna, það er held ég spáð rigningu á morgun, vonandi bara það mikilli að allan snjó taki upp áður en frystir á ný. Það er svo sem varla hægt að segja að það sé snjór hér í höfuðborginni, rétt smáföl og allar umferðagötur marauðar, Nesvegurinn alveg auður en smásnjór á Tjarnarbólinu.
Ekki meira að sinni, lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?