þriðjudagur, maí 20, 2008
Anna Frank á Akranesi
Það sækir að mér depurð þegar ég hugsa til Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Ekki svo að skilja að ég hafi nokkurn tíma haft mikið álit á manninum, en hafi svo verið er það nú horfið eins og dögg fyrir sólu. Það er fjandi illmannlegt að reyna að afla fylgis við deyjandi flokk með því að höfða til lægstu hvata fólks, þ.e að það sé að missa spón úr askinum sínum. Sem reyndar er haugalygi þar sem kostnaður við komu flóttafólksins liggur alfarið hjá ríkinu, ekki króna af því fjármagni sem Akraneskaupstaður hefur til ráðstöfunar í velferðarkerfið þar á bæ fer í móttökuna. Spurningin er, hefði sagan verið öðruvísi, og Anna Frank sótt um hæli á Akranesi á sínum tíma, hvort henni hefði verið vísað burt. Reyndar var téður Magnús Þór ekki farinn að láta til sín taka á þeim árum, en engu að síður vísuðu Íslendingar úr landi gyðingum sem reyndu að fá hæli hér og enduðu svo ævina í útrýmingarbúðum nasista, þannig að segja má að við höfum líf saklauss fólks á samviskunni. Við ættum þess vegna að skammast okkar og taka vel á móti því fólki sem hefur ekki í annan stað að venda nema þessa eyju hérna norður í Ballarhafi. Það er ekki eins og því hafi dottið í hug í einhverju bríaríi að skella sér bara til Íslands.
Annars er það besta sem ég hef séð skrifað um þetta mál að finna á:
http://adaltutturnar.blogspot.com og ég hvet alla til að kynna sér það.
Lifið heil.
Annars er það besta sem ég hef séð skrifað um þetta mál að finna á:
http://adaltutturnar.blogspot.com og ég hvet alla til að kynna sér það.
Lifið heil.