sunnudagur, maí 11, 2008

 

Hvítasunnublús

Ég er að vinna verkefni núna sem gerir mig svo þunglynda að það hálfa væri nóg.
Segi frá því seinna hvað það er, en mikið vildi ég að ég væri búin með þetta, búin að lesa það yfir og skila því. Það er nefnilega ekki nóg með að þetta sé niðurdrepandi heldur er líka um langan texta að ræða, meira en helmingi lengri en í venjulegri kvikmynd.
Hvítasunnuhelgin fer sem sagt í deprimerandi vinnu og fátt annað.
Við fengum reyndar ágæta heimsókn í dag, góðan vin sem við höfum ekki séð allt of lengi. Það var býsna notalegt að taka sér frí frá ömurleikanum og rökræða um allt milli himins og jarðar og ágætt að vera ekkert endilega alltaf sammála.
Og heimsfréttirnar að undanförnu hafa ekki verið til að hressa upp á andlegu hliðina og svo sem ekki heldur innlendar kreppufréttir. Ég held hreinlega að allt sé að fara til helvítis, ekki bara hér á Íslandi heldur hvarvetna í veröldinni. Tökum bara Burma - eða Mjanmar eins og það heitir núna - ef stjórnvöld eru ekki að hrella borgarana og kúga þá taka náttúruöflin við. Og þá vilja stjórnvöld að sjálfsögðu ekki hleypa starfsfólki erlendra hjálparstofnana inn í landið. Þau vilja auðvitað gjarnan taka við hjálpargögnum en vilja ráðstafa hjálpinni sjálf. Hljómar það ekki svolítið grunsamlega? Hvar skyldi hjálpin svo lenda? Ég er ansi hrædd um að mikið af henni lendi hjá stjórnarherrunum sjálfum.
En þar sem ég hef ekkert upplífgandi að segja held ég að best sé að hætta.
Lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?