laugardagur, maí 31, 2008

 

Jarðskjálftafréttir

Ég sat við tölvuna eins og venjulega um þetta leyti dags þegar allt tók að hristast í kringum mig. Sjónvarpið á borðinu lék á reiðiskjálfi, tölvan hentist til og hurðin á skápnum við dyrnar opnaðist og lokaðist til skiptis. Þetta var greinilega jarðskjálfti. Eitt augnablik var ég ekki viss um hvað ég ætti að gera, en svo sá ég auðvitað að ég yrði að halda tölvunni og sjónvarpinu kyrru, ekki máttu vinnutækin hrapa niður á gólf og eyðileggjast. En þegar ég fann að líklega myndu téðir hlutir ekki falla á gólfið þótt stuðningi mínum sleppti tók ég að fikra mig í átt að dyrunum og þegar ég loksins opnaði var mesti hamangangurinn að líða hjá. Það var svolítill skelfingarsvipur á eiginmanninum, hann skildi ekki hvað tafði mig svona, af hverju ég væri ekki löngu komin fram. En þar sem lítill hávaði heyrðist úr vinnuherberginu hafði hann sláandi litlar áhyggjur af því að ég lægi á gólfinu undir öllu draslinu. En að öllu gamni slepptu er þetta held ég snarpasti jarðskjálfti sem ég hef lent í. En það eina sem valt um koll hér á Tjarnarbóli voru tannburstarnir okkar hjónanna sem stóðu á hillu inni á baði og einn lítill fíll í fílaskápnum mínum. Reyndar einn af þeim flottari, úr kristal, en hann brotnaði ekki sem betur fór.

Og þá að öðru: Þjóðhátíðarskjálftanum árið 2000.
17. júní árið 2000 vorum við hjónin stödd í Eistlandi og höfðum ekki hugmynd um að allt Suðurlandsundirlendið léki á reiðiskjálfi. En daginn eftir, 18. júní, flugum við frá Tallin til Kaupmannahafnar. Að venju tókum við leigubíl frá Kastrup að hótelinu okkar í miðborginni og þegar við fórum að tala saman í aftursætinu spurði bílstjórinn, sem reyndist vera frá Króatíu, hvaðan við værum. Við tjáðum honum að við værum Íslendingar að koma frá Eistlandi og ætluðum að stansa aðeins í Kaupmannahöfn áður en við færum heim. Hann hélt nú að við færum ekki heim í bráð, það hefðu orðið svo miklir jarðskjálftar á Íslandi daginn áður að allt væri í rúst, öll hús væru hrunin og alþjóðlegar hjálparsveitir á leið til landsins. Við urðum svolítið hissa en tókum þessu með ákveðnum fyrirvara. Líklega hefði orðið suðurlandsskjálfti eins og búist hafði verið við um tíma, en að öll hús á svæðinu hefðu hrunið og neyðarástand ríkti á gjörvöllu landinu væri frekar ólíklegt. Blessuðum bílstjóranum fannst við taka þessum fréttum af mikilli rósemi og ég sá að hann taldi okkur í algerri afneitun. Þegar á hótelið var komið var tekið vel á móti okkur og okkur tjáð að þrátt fyrir að við hefðum bara pantað venjulegt herbergi myndum við fá lúxusherbergi á sama verði. Á leiðinni upp veltum við fyrir okkur hvort venjulegu herbergin hefðu verið yfirbókuð eða hvort við fengjum lúxusherbergið til að létta okkur áfallið af því að heyra um hamfarirnar. Við reyndum svo strax að hringja í synina, en hvorugur þeirra svaraði, svo það endaði með að ég hringdi í íslenska vinkonu mína í Kaupmannahöfn og fékk réttu fréttirnar hjá henni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?