sunnudagur, maí 04, 2008

 

Ánægjuleg helgi

Þar sem afmælið mitt bar upp á laugardag þetta árið ákvað ég að hafa fjölskylduna í kaffi. Fjölskyldan syðra sem stödd er á landinu mætti eins og hún lagði sig og við áttum ánægjulega stund saman. Eiginmaðurinn gaf mér óvænta afmælisgjöf - myndina sem hann tók í Kanada af fílunum á sléttunni. Nei, við sáum enga fíla á sléttum Kanada en á Íslendingadaginn á Gimli sá ég á markaðinum alveg yndislega fallega mynd af fílahjörð á hlaupum á afrískri sléttu. Myndin var of stór til að drösla henni á milli heimsálfa og ég sá mikið eftir að geta ekki tekið hana með mér heim. En bóndinn var svo sniðugur að hann tók mynd af myndinni, stækkaði hana og lagfærði í tölvunni og lét síðan innramma hana fallega og á laugardagsmorguninn var búið að stilla henni upp í vinnuherberginu mínu, mér til einkar óvæntrar ánægju. Og Hulda og Krissi færðu mér kaffipakka og ljónsunga (tuskudýr) svo ég fékk bæði fíla og ljón í afmælisgjöf. Sem sagt: Góður afmælisdagur.
Í morgun vöknuðum við svo nógu snemma til að vera á undan mestu traffíkinni í sundlaugina og gátum svamlað þar nægju okkar í ro og mag áður en haldið var heim og tekið til við að vinna fyrir salti í grautinn. Ekki veitir nú af. Við erum búin að borga Ameríkuferðina og lítið eftir undir koddanum - en samt nóg til að við sofum sæmilega rótt.
Og nú er verið að fremja fyrsta grill sumarsins á svölunum á Tjarnarbóli. Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina um grillaðar lambakótelettur með piparsósu! Namm!
Megi kvöldið verða ykkur ljúft og gott.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?