miðvikudagur, júní 04, 2008

 

Veruleikafirring

Nú er hluti þjóðarinnar í hysteríukasti af því að ísbjörn var felldur fyrir norðan. Reyndar sýnist mér margt af þessu vera fólk sem heldur að mjólkin verði til í búðinni og kindum sé slátrað til að fá ullina. (Í alvöru veit ég um fólk, reyndar ekki Íslendinga, sem gengur ekki í ullarflíkum af þeirri ástæðu.) Því spyr ég: Hvað myndu þessir sakleysingjar gera ef þeir væru á gangi í íslenskri náttúru og mættu skyndilega ísbirni? Reyna að klappa honum? Eða hvernig brygðust íbúar í Vesturbænum við ef þeir vissu af ísbirni lausum í nágrenni Ingólfstorgs? Myndu þeir vera gráti nær í sjónvarpinu og harma að dýrið hafi verið fellt? Maður líttu þér nær. Og hvernig átti svo að bjarga þessum ræfli? Jú, skjóta í hann svefnlyfi? Hvað svo? Hvað hefði svefnlyfið virkað lengi? Hvert átti svo að flytja sofandi ræfilinn, hvenær og hvernig? Gott og vel, ísbirnir eru í útrýmingarhættu og auðvitað væri það glæpur að drepa ísbjörn úti á ísnum eða hengja dýr á sundi, eins og gert var um árið. En ísbjörn uppi á landi er ísbjörn á ókunnugum stað við annarlegar aðstæður og viðbrögð dýrsins því önnur en í náttúrulegu umhverfi þess. Mér finnst þess vegna kórrétt að skjóta ræfilinn og ég er svo mikil villimanneskja að helst vildi ég nýta kjötið af honum - ég vildi gjarnan hafa ísbjarnarsteik í helgarmatinn - en ég vil auðvitað líka helst veiða hvali og finnst bæði rengi og hvalkjöt herramannsmatur, svo það er kannski ekki mark á mér takandi.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?