föstudagur, ágúst 01, 2008

 

Veðurfréttir og skrautbúningur

Veðurblíðan hér á svölunum á Tjarnarbóli undanfarna daga hefur verið með þeim ósköpum að ég helst ekki við þar sökum hita lengur en í stundafjórðung í einu og þá aðeins með hatt á höfðinu. 24 stig í skugganum er nánast föst hitatala! Þetta er alveg ótrúlegt og ég hefði aldrei trúað því að á Íslandi flýtti maður sér að draga fyrir til að loka sólina úti og hreinlega óskaði þess að vera með loftkælingu í íbúðinni.
Annað er það að frétta að á vísir.is var frétt um að Dorrit hefði klæðst dýrindis "skrautbúningi" við embættistöku Ólafs Ragnars í dag. Ég gat ekki stillt mig um að senda athugasemd og leiðrétta þetta og stuttu seinna fékk ég tölvupóst þar sem mér var vinsamlega bent á að skoða fréttina aftur. Og, viti menn (og konur), það var búið að leiðrétta þetta. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég geri athugasemd við frétt á vísir.is en í hitt skiptið var það vegna þess að greinin var full af stafsetningar- og málvillum. Það var reyndar leiðrétt líka en án þess að mér væri bent á það.
Svo óska ég öllum nær og fjær ánægjulegrar verslunarmannahelgar.
Lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?