fimmtudagur, október 23, 2008

 

Hreysti

Héðan í frá er ég hætt allri neikvæðni í skrifum mínum, að minnsta kosti í bili. Öll blöð og fréttatímar segja ekki annað en kreppufréttir sem draga úr manni allan kraft, eins og maður þurfi ekki á öllum sínum krafti og jákvæðni að halda núna. Svo ég hef ákveðið að reyna að vera jákvæð og upplífgandi og þá er komið að fyrirsögninni á þessu bloggi.
Í gær, miðvikudag, tókum við hjónin okkur pásu upp úr hádeginu og fórum í sund eins og við reynum að gera nokkrum sinnum í viku. Þegar út í laug var komið blasti við okkur skilti með upplýsingum að laugin væri köld, aðeins 26°. Og þegar við ætluðum að láta klippa af kortinu okkar brosti unga stúlkan í afgreiðslunni og sagði að það væri ókeypis í laugina vegna þess hvað hún væri köld. Eftir smástopp í pottinum ákvað ég að drífa mig ofan í og synda svolítið. Það verður að viðurkennast að laugin var "svolítið svöl" eins og ágætur fornbókasali og fastagestur sagði við mig þegar ég bjó mig undir sundsprettinn, en mikið ofsalega var gott að synda í ekki heitari laug en þetta. Ég vildi hreinlega að hún væri svona alltaf. Reyndar synti ég ekki í hálftíma eins og ég er vön, ekki út af kuldanum heldur hafði ég ekki tíma í það, og það var frábært að skella sér svo í heitari heita pottinn á eftir.
Sem sagt, sú gamla á Tjarnarbóli er bara hraust kerling.
Hafið það gott og farið varlega í vonda veðrinu.

Reyndar er ég svolítið spæld út af því að vita ekki hvort ég skulda allt í einu fjórar milljónir, sex milljónir eða sex plús fjórar milljónir, í viðbót við þessar venjulegu skuldir mína.
Hver getur frætt mig um það?

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?