fimmtudagur, október 30, 2008

 

Vandi á höndum

Nú er mér vandi á höndum. Síðustu tvo laugardaga hef ég mætt á Austurvöll klukkan þrjú til að mótmæla og krefjast þess (aðallega) að Davíð Oddsson haldi sér saman og víki úr Seðlabankanum. Svo sé ég í blöðunum að á laugardaginn kemur verði gengið frá Hlemmi niður á Austurvöll og nú eigi að krefjast nýrra kosninga, sem hugsanlega getur verið ágætt. Minn vandi er hins vegar sá að ég treysti mér ekki til að taka undir kröfu um að þing verði rofið og efnt til kosninga því ég treysti engum þeirra pólitíkusa sem nú sitja við stjórnvölinn til að stjórna landinu sómasamlega, enda þótt ég vilji að þeir víki sæti, og því miður treysti ég heldur ekki stjórnarandstöðunni. Geir Haarde sem er undir hælnum á Davíð Oddssyni hefur helst unnið sér það til frægðar að undanförnu að nýtt sagnorð kennt við hann hefur unnið sér sess í íslensku máli, sögnin að hardera. Ingibjörg Sólrún og Össur stíga til skiptis tangó með tilþrifum við téðan Geir Haarde þótt þau taki einstaka sinnum smádýfu og trukk, eiginlega rétt bara til að halda dansherranum vakandi. Um Steingrím J. Sigfússon þarf ekki að fara mörgum orðum, hann hefði sómt sér vel um aldamótin 1900, en ég sé ekki að hann eigi neinn vettvang í samtímanum. Um aðra flokka er óþarfi að fjölyrða. Og ef nýtt framboð er væntanlegt með Jón Baldvin í fararbroddi held ég að ég treysti mér ekki til að ljá því atkvæði mitt. Mér eru nefnilega minnistæð orð hans um hvað þeir hefðu "smollið gersamlega saman" þegar hann og téður Davíð komu í land eftir að Viðeyjarstjórnin varð til. Reyndar hef ég tvívegis verið spurð hvort ég trúi ekki að menn geti séð að sér og vitkast og svarið er; jú að vísu trúi ég því, en ekki í þessu tilfelli.
Reyndar myndi ég treysta tveimur mönnum til að fara með stjórn landsins í sameiningu, en aðeins ef engir aðrir fengju að skipta sér af málunum. Þorvaldi Gylfasyni til að stjórna efnahagsmálum og Jóni Ormi Halldórssyni til að fara með utanríkismál. Það er þetta sígilda með menntaða einvalda, í þessu tilfelli reyndar tvo.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?