sunnudagur, nóvember 16, 2008

 

Endalaus heppni og eðalbókmenntir

Ég hef hingað til talið mig vera heppna og lánsama manneskju og það virðist tilfellið. Nýjasta heppnin er að þessir fáu aurar sem ég hafði ekki eytt í sukk og svínarí og átti eftir á Sjóði 9 hjá Glitni og taldi þess vegna tapaða eru það ekki alveg. Ég hef sem sagt fengið liðlega 85% af þeim inn á einhvern fínan reikning sem heitir Sérkjör eignastýringar Glitnis. Merkilegt nafn á lítt merkilegum reikningi.
Annars hef ég líka verið að lesa eitt og annað, m.a. bókina hans Árna Bergmann, Glíman við Guð. Margt gott í henni og athyglisverðar pælingar um eilífðarmálin.
Eitt sem mér fannst sérlega gott var setning, sem höfð er eftir Einari, trúaða frændanum, í tvennd Árna: "Guð er ekki í kjaftæðinu. " Þar er ég hjartanlega sammála.
Og ég er ekki síður sammála því sem trúlausi frændinn, Sveinn, segir. "Reyndu ekki að útskýra þennan guð þinn fyrir mér með skynsemi. Þú getur alveg eins étið súpu með gaffli." Mér finnst nefnilega bara fínt að sumt sé ofvaxið okkar skilningi.
Og þegar ég hafði lokið bók Árna tók ég til við Óvinafagnað eftir Einar Kárason. Hún er ekki síður athyglisverð - ágætur útdráttur úr Sturlungu - og þar rakst ég á setningu sem mér finnst eiga býsna vel við daginn í dag. Þórður kakali hefur sem sagt dvalið um hríð í Niðarósi við drykkjuskap og kvennafar, peningarnir að heiman á þrotum og með þeim gestrisnin og vinarþelið í hans garð. Þá rennur upp fyrir honum "...að auralaus Íslendingur er eitthvert það ómerkilegasta kvikindi sem menn telja sig þekkja við hirð Noregskonunga." Ætli þannig sé ekki farið með "útrásarvíkingana" okkar í dag? Þeir eiga varla upp á pallborðið við hirðir konunga núna hafi þeir einhvern tíma átt það.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?