sunnudagur, nóvember 23, 2008

 

Á móti sjálfri sér

Ingibjörg Sólrún segist skilja reiði fólks og ef hún væri ekki sjálf í ríkisstjórn myndi hún mæta í mótmælin. Þýðir þetta ekki að hún sé á móti sjálfri sér? Ég get ekki skilið það öðruvísi.
Við hjónakornin mættum að venju í mótmælin á Austurvelli í gær og manni hlýnar um hjartaræturnar að sjá hvernig fjöldinn eykst stöðugt. Við höfðum engin matvæli með okkur til að fleygja í Alþingishúsið, enda er ljótt að sóa mat þegar kreppan sækir að og maður fleygir ekki óskemmdum mat. Kannski ég ætti að geyma matarafgangana aðeins lengur, leyfa þeim að úldna og fara svo með þá og fleygja í Alþingishúsið. Annars ætti frekar að fleygja í Seðlabankann eða Stjórnarráðið þar sem einu sinni voru geymdir dæmdir glæpamenn en núna sitja þeir þar ódæmdir. Ég var búin að ákveða að mæta með skaftpott og sleif og berja kröftuglega en svo steingleymdi ég því auðvitað og líklega hefði ég ekki haft kjark til að láta illa. Reyndar er ég hrædd um að óánægja fólks fari bráðum að brjótast út í óeirðum. Mótmælin við lögreglustöðina í gær eru held ég bara upphafið. Nú segja sumir að lögreglan hafi varað fólk við áður en piparúðanum var beitt, en ég gat ekki heyrt neinn hrópa "Gas" Gas!" þegar sýnt var frá því í sjónvarpinu. Kannski gasmaðurinn hafi ekki verið á vakt.
Reyndar er ég engu nær um hvað ég myndi kjósa ef efnt yrði til kosninga núna, en ef kosningar yrðu í vor gæfi það flokkunum kost á að skýra markmið sín og málefni og fólk fengi ráðrúm til að velta fyrir sér kostum og göllum viðkomandi stjórnmálahreyfingar.
Meðan ríkisstjórn og aðrir ráðamenn hanga á embættunum eins og hundar á roði getur hins vegar allt gerst og lengi getur vont versnað.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?