sunnudagur, janúar 04, 2009

 

Helvítis fokking fokk!

Gleðilegt ár, ágætu landsmenn, nær og fjær.
Nú er komið nýtt ár en lítið bólar á breytingum á ástandinu á Fróni. Á Tjarnarbóli voru áramótin einkar hefðbundin, frumburðurinn mætti í mat með fjölskylduna, ég eldaði afbragðsgóða hreindýrasteik sem tengdadóttirinn útvegaði, en því miður tókst mér að hafa hana, þ.e. steikina, ekki tengdadótturina, of lengi í ofninum þannig að hún gegnumsteiktist. Ekki að hún yrði samt vitund þurr, hún var einkar meir og bragðaðist vel. Svo var horft á skaupið sem var eitt það allra besta sem ég hef séð enda nógur fíflagangurinn í þjóðfélaginu til að gera grín að. Mikið hefur mér oft liðið eins og mótmælandanum sem Jón Gnarr lék, bara helvítis fokking fokk, og sömuleiðis eins og konunni sem var að leita að þvottaefninu í stórmarkaðinum. Næst þegar ég verð spurð að einhverju sem ég ekki veit mun ég svara: "Ég held að það sé ekki tímabært að gefa upplýsingar um það mál að svo stöddu." Reyndar mætti ég ekki í mótmælin í gær og býst ekki við að mæta oftar, mér finnst nefnilega afar sorglegt að börn skuli vera látin halda kreppuræður á fjöldafundi. Það er ljótt að íþyngja börnum með tali um að þau skuldi svo og svo margar milljónir sem þau verði alla ævina að borga. Leyfum börnunum frekar að vera börn, allt í lagi að segja þeim að nú þurfi spara og kannski ekki hægt að leyfa sér eins mikið og áður, en átta ára börn hafa ekki (sem betur fer) nægan þroska til að skilja ástandið. Ef foreldrar mínir hefðu sagt mér þegar ég var átta ára að nú skuldaði ég allt í einu ellefu milljónir held ég að ég hefði ekki getað sofið fyrir áhyggjum.
Nú verður bara spennandi að sjá hvað næstu mánuðir bera í skauti sér, mér sýnist allt benda til að það verði kosningar með vorinu. Ég er auðvitað engu nær um hvað ég myndi kjósa, ég vil fá nýtt fólk í landsmálin.
Annað var það ekki að svo stöddu en auk þess legg ég til að ákveðinn seðlabankastjóri (ásamt ritstjóra DV) verði sendur í ítarlega geðrannsókn.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?