mánudagur, janúar 19, 2009
Langa pönk?
Þann 15. janúar um kvöldmatarleytið átti sá merkilegi viðburður sér stað að við hjónin urðum langamma og langafi. Hulda, sonardóttir okkar, eignaðist undurfallegan dreng sem var 14 merkur og 51 sentímetri. Við hjónakornin erum svo stolt og ánægð að við höfum varla komið við jörðina síðan þetta gerðist. Sá litli flýtti sér svolítið í heiminn, hann átti ekki að koma fyrr en 29. jan. en ákvað svo bara að vera ekkert að draga þetta á langinn. Reyndar er 15. janúar dagurinn sem afi hans, sonur minn, átti að fæðast en sá var líka að flýta sér í heiminn, fæddist 5. jan. og rétt náði þannig að vera jólabarn. En mér finnst undarlegt að konur séu sendar heim af fæðingardeildinni eftir sólarhring. Við fórum í heimsókn til litlu fjölskyldunnar á sunnudaginn og mikið lifandis ósköp var unga móðirin þreytt. Prinsinn er samt afskaplega rólegur og sefur vel en að vera send heim svona fljótt finnst mér bara ljótt, mér þætti allt í lagi að konur fengju að hvíla sig svolítið eftir fæðinguna. Reyndar var mér sagt að oft væru konur sem fæddu að morgni sendar heim sama kvöld - hvað á svoleiðis eiginlega að þýða?
En sem sagt þegar Hulda fæddist var ég kölluð amma pönk (var víst nýbúin að fara í svolítið pönkaða klippingu) en ég held að ég verði nú ekki kölluð langa pönk núna. Ætli ég verði ekki bara kölluð Sigga langa. Einn forfaðir mannsins míns var kallaður Jón langi og það er við hæfi að eiginmaðurinn taki það kenninafn upp.
En sem sagt þegar Hulda fæddist var ég kölluð amma pönk (var víst nýbúin að fara í svolítið pönkaða klippingu) en ég held að ég verði nú ekki kölluð langa pönk núna. Ætli ég verði ekki bara kölluð Sigga langa. Einn forfaðir mannsins míns var kallaður Jón langi og það er við hæfi að eiginmaðurinn taki það kenninafn upp.