fimmtudagur, janúar 15, 2009

 

Morgunpanik og skammarbréf

Ég vissi að ég ætti að mæta á Göngudeild sykursjúkra 15. jan klukkan 08.30, þ.e. föstudaginn 15. jan. eins og það hafði stimplast inn í kollinn á mér. Hafði því engar áhyggjur þegar ég fór að sofa í gærkvöldi yfir að þurfa að vakna snemma og datt auðvitað ekki í hug að stilla vekjaraklukkuna. En svo gerðist eitthvað í svefnrofunum í morgun, eitthvað sem sagði: Bíðum við, var ekki sá 14. í gær? Ég á örugglega að vera á göngudeildinni á föstudegi, en ég skrifaði samt hjá mér 15. janúar. Þegar þessar vangaveltur á milli svefns og vöku höfðu staðið svolitla stund ákvað ég að rífa mig upp og ganga úr skugga um þetta. Jú, ég staulaðist fram og leit á endurkomukortið. Á því var reyndar enginn vikudagur en þar stóð með stórum stöfum 15. jan. klukkan 08.30. Svo varð mér litið á klukkuna, hún var 08.20. Og þar með hófst mikið írafár og fum. Eiginmaðurinn rauk til og lagaði kaffi og þegar ég loks hafði mælt blóðsykurinn, sprautað mig og klætt mig var hann líka búinn að smyrja handa mér brauðsneið með osti sem ég gleypti svo í mig með hálfum kaffibolla áður en ég rauk út. Sem betur fer var ekki mikil umferð og ég var mætt á göngudeildina klukkan níu, hálftíma of sein. En stundum er eins og heppnin elti mig, þessi smáheppni sem samanlagt þegar ævin er á enda er miklu betri en stór happdrættisvinningur sem ég myndi hvort sem er bara eyða í vitleysu. Það var nefnilega einhver starfsmannafundur í gangi sem var að ljúka þegar ég mætti. Ég komst þess vegna næstum strax að og var komin heim aftur upp úr tíu.
Svo skrifuðum við hjónin karlfjandanum, óþokkanum Símoni Peres í Ísrael harðorð bréf sem ég fór með í póst út á Eiðistorg seinnipartinn í dag. Þann póstkostnað, heilar 90 krónur pr. stykkið eða 180 krónur fyrir tvö bréf, borgaði ég með glöðu geði. Ekki að ég haldi að karlinn lesi þetta en það getur kannski gert starfsfólkinu sem lætur sig hafa það að vinna fyrir hann lífið leitt og það í staðinn gert þrælmenninu lífið leitt. Ég skil ekki af hverju við höfum ekki slitið stjórnmálasambandi við ísraelsku barnamorðingjana. Þurfum við virkilega enn þá að skríða fyrir Könunum? Hafa þeir ekki fyrir löngu gefið skít í okkur?
Og að lokum fer ég fram á að þau sem ráða hér á landi verði annað hvort sett af eða send í geðrannsókn ásamt aðalbankastjóra Seðlabankans.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?