þriðjudagur, maí 26, 2009

 

Sól, sól, skín á mig

Nú er orðið langt síðan ég hef sett eitthvað hingað inn en það stafar fyrst og fremst af því að ég hef ekki haft neitt að segja og eins og gáfuð manneskja sagði einhvern tíma: Ef þú hefur ekkert að segja er réttast að þegja. En nú er sumarið að bresta á með sól og blíðu - sumir kvarta reyndar undan rigningu en það eru bara hitaskúrir við og við og nauðsynlegt gróðrinum. Í "gróðurhúsinu" á svölunum er allt á réttri leið, og meira að segja nýju sólblómin eru farin að gægjast upp úr moldinni og eru bara nokkuð hraustleg og löngu komin út á svalagólfið. Animónurnar blómstra og sumarblómin sem ég sáði með þeim eru líka farin að koma upp. Ég er alveg ákveðin í að fá mér annan svona stamp og stinga niður í hann laukum í haust svo ég fái upp krókusa, páskaliljur og túlipana næsta vor.
Í gær var ég svo á skemmtilegum undirbúningsfundi fyrir ættarmótið í júlí og nú bíð ég eftir tölvupósti frá syninum til að sjá hvað það var sem ég lofaði að gera.
Það sem aðallega angrar mig er að það er víst útséð um að við vinkonurnar förum í ferðina okkar austur á Hérað í ágúst eins og ráðgert var. Reyndar gerir það meira en að angra mig, ég er bæði sár og öskureið.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?