miðvikudagur, júlí 27, 2005

 

Að vera samkvæm sjálfri sér - eða hvað?

Haldið þið ekki að í gær hafi sjálfur þrjóturinn Eiríkur Jónsson á DV hringt í mig. Málið var að diskurinn með Villiköttunum var að koma út, en fyrir þá sem ekki vita eru á honum lög og textar eftir eldri son minn og sömuleiðis lög eftir Frey Eyjólfsson úr Geirfuglunum. En hvað um það frumburðurinn hafði verið í viðtali við DV og nú var spurt hvort ég vildi vera með í dálki sem kallaðist mamma segir. Ég hef reyndar einu sinni lent í þessum sama dálki á árunum áður með spurningum um sama son, sem var svo sem allt í lagi, en daginn eftir sleit eiturpenninn Svarthöfði orð mín rækilega úr samhengi (og vitnaði meira að segja í mig á forsíðu). Eftir það hef ég ekki keypt DV. Auk þess er EJ ekki í miklu uppáhaldi hjá mér svo ég hafði allt á hornum mínum, fékk þarna útrás fyrir margra ára innibyrgða gremju, en eins og karlgreyið sagði var hitt atvikið fyrir hans tíð á blaðinu og allt annar ritstjóri þá. Honum tókst því að lempa mig og ég svaraði einhverjum spurningum og það síðasta sem hann sagði við mig var: „Ég fer vel með þetta. “ Ég sagði að það væri eins gott og ef ég yrði ekki ánægð skyldi hann eiga mig á fæti og mér væri full alvara með því. Ég keypti DV í gær til að sjá viðtalið - það var í góðu lagi - og nú neyðist ég líklega til að kaupa það aftur í dag til að sjá hvor EJ hefur staðið við orð sín.
Ég held þetta hljóti að kallast að vera ekki samkvæm sjálfri sér. Eða hvað?

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?