laugardagur, mars 29, 2008

 

Vinir Hannesar

Ég hélt að vinir Hannesar væri nógu efnaðir til að snýta 3,1 millu út úr nefinu á sér eins og ekkert væri. Hefur fall krónunnar virkilega haft þau áhrif að þeir þurfi að ganga um með betlibauk?
Annars ætla ég rétt að vona að enginn sé það heimskur að honum detti í hug að taka þátt í þessu.
Það var ekki annað.
Njótið helgarinnar í sólskininu.

þriðjudagur, mars 25, 2008

 

Að páskum afstöðnum

Það fór lítið fyrir hátíðleika páskanna hér á Tjarnarbóli. Eiginmaðurinn að skrifa ritgerðir og afla heimilda í þær og frúin að vinna á fullu. Ég mannaði mig ekki einu sinni í að bjóða þeim hluta fjölskyldunnar sem býr hér í nágrenni við okkur í mat yfir hátíðina, enda sömu annirnar á þeim bæ. Þar að auki kom sonardóttirin ekki frá Svíþjóð fyrr en laugardaginn fyrir páska, en hún verður nú heima í þrjár vikur svo það ætti að gefast tími til að ná öllum saman. Ég vildi bara frekar gera það fyrr en seinna - faðir hennar fer held ég af landinu upp úr mánaðamótunum, man ekki alveg hvenær. En þetta voru sem sagt hinir ágætustu páskar, það er óþarfi að vera alltaf með tilstand, við höfðum það gott hérna hjónakornin. Það eina sem olli vonbrigðum var páskalambið sem við freistuðumst til að kaupa. Þannig er að við erum frekar tortryggin út í forkryddað kjöt en um daginn freistuðumst við til að kaupa einiberjakryddlegið lambalæri sem var aldeilis frábært. Og í bjartsýniskasti út af því keyptum við kryddlegið páskalamb, lítið læri sem átti að duga vel í matinn handa okkur einu sinni og nógur afgangur í eitthvað létt daginn eftir. En þvílíkur vibbi sem þetta krydd var, alveg ferlega væmið og klígjulegt. Það var sem sagt meira en nógur afgangur, en af því að ég er alin upp við að það sé ljótt að henda mat var restinni auðvitað stungið inn í kæliskáp og verður þar trúlega þar til allt fer að mygla því það er í lagi að henda skemmdum mat. Ég skil ekki af hverju góður matur er vísvitandi gerður vondur. Eitt er alveg öruggt, það varður langt þangað til ég kaupi eitthvað forkryddað aftur.

þriðjudagur, mars 18, 2008

 

Til hvers?

Ég hef hingað til talið Illuga Jökulsson þokkalega skynsaman en eftir að hlusta á hann og Tamimi í sjónvarpinu áðan greindi ég enga skynsemi hjá téðum Illuga og ekki heldur hjá andmælandanum. Myndbirting sem þessi þjónar engum tilgangi nema vekja sundrung hjá annars þokkalega samheldinni þjóð. Vill ritstjórinn kannski koma af stað borgarastyrjöld? Þótt eitthvað sé leyfilegt er ekki þar með sagt að endilega þurfi að gera það. Reyndar er ég ekki íslamstrúar en kannski myndi ég íhuga það til þess eins að sýna samúð. Og þó, ég vil tilheyra trúflokki samkvæmt því sem ég trúi - ekki bara til að ákveðinn söfnuður fái gjöldin mín eins og sumir gera og mótmæla svo að um söfnuð sé að ræða. En þetta var nú reyndar útúrdúr.
Allah akbar.

 

Áhyggjur út af engu

Af því sem ég skrifaði hérna í morgun vil ég bara taka fram að það er gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur út af öðru en hækkunum á utanlandsferðum. Hjá mörgum er lífið nefnilega ekki bara húllumhæ og fíflagangur eins og gömul vinkona mín og samstarfskona sagði alltaf. Ég er sem sagt ekkert að kvarta.
Vildi bara taka þetta fram ef einhver kynni að hafa misskilið mig.

 

Að hika er sama og tapa

Við Ella erum búnar að tapa stórfé á falli krónunnar af því að við gengum ekki frá septemberferðinni til Sardiníu um leið og við pöntuðum og greiddum inn á íbúðina. En það verður víst að hafa það og nú kemur hún eftir vinnu í dag og við neglum þetta niður. Ég þori bara ekki að fara inn á síðu Ryanair til að gá hvað flugið kostar í pundum - líklega eru öll tilboð löngu á þrotum. Og New York ferðin okkar hjónanna í júní hlýtur að hækka svakalega, ég held að verðið sem ég fékk á hana hafi miðast við gengi í nóvember. En skítt með það - við hljótum að græja þetta, það virðist nóg vinna fram undan á öllum vígstöðvum, og þessi ferðalög verða áreiðanlega peninganna virði.
Hafið það svo gott í dymbilvikunni og njótið páskanna.

fimmtudagur, mars 13, 2008

 

Furðulegur fjandi og góður endir

Það er furðulegt hvað sumt fólk sem ég þekki ekki neitt getur farið í fínu taugarnar á mér og rétt áðan voru tveir slíkir unglingspiltar að láta dæluna ganga á Skjá einum. Það sem bjargaði mér var að síminn hringdi og ung stúlka spurði eftir eiginmanninum. Ég spurði á móti, kannski svolítið hryssingslega, hvort hún væri að selja eitthvað og ætlaði að benda henni á að það væri merkt við okkur í símaskránni að sölufólk mætti ekki hringja. Stúlkan afsakaði sig og sagðist vera að hringja frá VÍS og ætla að bjóða okkur uppfærslu á tryggingunum okkar. Þá sljákkaði í mér, henni var líklega heimilt að hringja þar sem við erum í viðskiptum við fyrirtækið og þar sem við höfum einmitt verið að ræða um að fá okkur víðtækari tryggingu, spurði ég bóndann hvort hann vildi ekki ræða við stúlkuna. Hann baðst hins vegar undan og bað mig að sjá um málið. Og það þarf ekki að orðlengja það að stúlkan var ákaflega viðræðugóð og nú höfum við fengið mun víðtækari tryggingu en við höfðum, þurfum m.a. ekki að ferðatryggja okkur sérstaklega sem kemur sér vel fyrir fólk með ólæknandi ferðabakteríu, og auk þess var innbústryggingin hækkuð í viðunandi horf. En svo er auðvitað óvíst ef eitthvað kemur fyrir að maður fái nokkuð út úr tryggingunum, en den tid den sorg. Það er alltént þægilegt að vita af því að við séum sæmilega tryggð. Maður tryggir ekki eftir á, sagði maðurinn.

sunnudagur, mars 09, 2008

 

Góður pistill

Reiðilestur Einars Más Guðmundssonar í sjónvarpinu í kvöld um "bókmenntaþáttinn" Kiljuna var eins og talaður út úr mínu hjarta. Helst vildi ég geta tekið í höndina á honum og þakkað honum kærlega fyrir orð í tíma töluð.
Vona bara að fleiri séu sammála mér um þetta.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?