miðvikudagur, nóvember 29, 2006

 

London, Clarice Cliff og ég.

Komin heim frá London eftir velheppnaða ferð. Garth-hotel var ósköp notalegt, eini gallinn að við fengum herbergi á efstu hæð og engin var lyftan, en á móti kom að við vorum tvær í fjögurra manna herbergi svo við gátum breitt vel úr okkur.
Föstudagurinn leið við búðarráp eins og gengur og gerist og svo var leiksýningin um kvöldið, Moon For The Misbegotten í Old Vic. Verst að bílstjórinn sem við pöntuðum til að aka okkur þangað var greinilega ekki vel kunnugur í London og ætlaði fyrst að fara með okkur á allt annan stað, en við gátum sem betur fer komið í veg fyrir það. En þegar á Waterloo Road var komið fann hann hvergi leikhúsið og loksins fór svo að við heimtuðum að hann stansaði svo við gætum spurt til vegar. Það var loksins gert og þá vorum við næstum því við hliðina á Old Vic. Nú var búið að eyða svo miklum tíma í tilgangslausan akstur að við höfðum ekki tíma til að fá okkur að borða áður en sýningin hófst. En hún var frábær, Kevin Spacey grét svo átakanlega að við táruðumst næstum því með honum. En stjarna sýningarinnar var tvímælalaust Eve Best, sem lék eina kvenhlutverkið og var á sviðinu allan tímann. Hún á örugglega eftir að verða heimsfræg. Eftir sýninguna fórum við á The Pit Bar, eða Leikhúskjallarann þeirra, og þar gátum við fengið okkur samlokur og bjór áður en við héldum heim í bólið.
Laugardagur rann upp og við ákváðum að byrja á því að rölta niður á Leicester Square af því að á Charing Cross Road var skóbúð sem við bókstaflega urðum að kanna. Ekki fengust samt neinir skór þar við okkar hæfi svo við héldum bara áfram og settumst að á Bella Italia við Leicester Square þar sem við höfðum fengið okkur bjór daginn áður. Eftir smáhressingu tókum við svo lestina til Notting Hill Gate og gengum um markaðinn á Portobello Road. Þar skannaði ég hvern sölubásinn á fætur öðrum í leit að einhverjum grip eftir Clarice Cliff, en auðvitað án árangurs. Á endanum fórum við inn á stóra antikmarkaðinn sem er alltaf opinn og í kjallaranum þar spurði ég bráðskemmtilegan karl hvort þessa gripi væri einhvers staðar að finna og þá hvar. Karlinn var hinn skemmtilegasti og við röbbuðum heilmikið saman um Clarice Cliff og hann benti mér á "a very nice and reasonable lady upstairs" sem oft væri með gripi eftir átrúnaðargoðið. Og, viti menn, ég fann þessa lady og hún var vissulega "nice and reasonable" og átti gripi eftir Clarice Cliff. En þeir kostuðu auðvitað hvítuna úr augunum og á endanum spurði ég einfaldlega hver væri ódýrasti gripurinn sem hún ætti. Og, viti menn, lítill platti (eiginlega bara undirskál) úr krókusalínunni sem kostaði 120 pund. Ég hafði svo sem ímyndað mér að Clarice Cliff kostaði sitt en ætlaði ekki að eyða meiru en 70 pundum en ég held að konan hafi séð hvað mér var mikil alvara og hvað mig langaði í eitthvað svo hún lét mig fá plattann fyrir 70 pund. Og nú trónir hann uppi á hillu í stofuskápnum og öðru hvoru fer ég inn í stofu og handleik hann og muldra: "My precious, my precious."
Um kvöldið hittum við Ann Anderson, vinkonu Ellu, og borðuðum með henni á taílenskum stað. Hún er verulega indæl og bráðgreind kona sem gaman var að spjalla við. Eftir matinn vildi hún samt koma sér heim og við stöllurnar fórum á fínan kampavínsbar þar sem við sátum í góðu yfirlæti til klukkan ellefu en þá var komið að því að fara á Jazz After Dark. Þegar komið var á staðinn áttum við ekki að fá að fara inn af því að við höfðum ekki pantað borð en þegar Ella dró upp útprentunina sem við vorum með af Netinu og við sögðumst komnar alla leið frá Íslandi til að mæta var okkur hleypt inn með því fororði að við yrðum að standa við barinn. Við vorum samt ekki fyrr komnar inn en kona tók á móti okkur og sagðist hafa handa okkur sæti. (Við vorum auðvitað eldgamlar kerlingar í samanburði við alla hina á staðnum). Hún fylgdi okkur svo að borði þar sem sat ungur og bráðhuggulegur maður og setti okkur þar niður. Við vorum ekki fyrr sestar en þessi huggulegi, ungi maður segir: "I knew that they would put the two most beautiful women in London at my table." Og það var eins og við manninn mælt, við yngdumst um mörg ár við þetta og fórum að spjalla við drenginn. Í ljós kom að hann var Skoti sem var í mastersnámi í mannfræði í London. Þetta var virklega skemmtilegur piltur og við spjölluðum saman og hlógum þar til klukkan var að verða eitt en þá röltum við upp á hótel.
Á sunnudaginn fórum við á National Gallery og sáum þar mjög fína sýningu sem kallast Manet to Picasso og á henni mátti sjá verk allra helstu snillinga málarasögunnar frá svona 1830 til 1930. Annað var nú eiginlega ekki gert, við borðuðum svo á Bella Italia áður en við fórum upp á hótel að ná í dótið okkar og komum okkur svo út á Heathrow. En þá kom í ljós að vélin heim var yfirbókuð og óvíst að Ella kæmist heim þar sem hún var á frímiða. Eftir mikið stapp og langa mæðu tókst að koma henni um borð í flugfreyjusæti og þannig sat hún eins og hæna á priki alla leiðina - sem reyndar tók ekki nema tvo tíma og tuttugu mínútur og ég held að ég hafi aldrei verið svona fljót heim frá London. En í Keflavík kom í ljós að taskan hennar hafði orðið eftir á Heathrow svo hún kom bara heim með einn plastpoka úr Hamleys. Jón sótti okkur svo á Umferðamiðstöðina og ég var komin heim til mín, dauðþreytt, rétt fyrir klukkan þrjú um nóttina. Var samt ekkert óhress á mánudaginn en voða fegin að þurfa ekki að mæta í vinnu klukkan níu en geta sofið til hálftíu. Dreif mig með reikningana í Senu og upp á Stöð 2 og fór svo að vinna eins og lög gera ráð fyrir. Og Ella fékk töskuna sína með andlitinu og jólagjöfunum strax á mánudaginn!
Nú er þetta orðinn svo langur pistill og mikið mál að ég skrifa örugglega ekkert á næstunni!

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

 

Ligga, ligga, lá!

Er að fara að pakka. Legg af stað til London upp úr hádeginu (verð að fara svona snemma þótt flugið sé ekki fyrr en hálffimm). Nánari fréttir þegar ég kem heim.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

 

Annríki og kuldaboli

Mikið hroðalega er kalt þegar það er 8 stiga frost og rok. Núna finnst mér gott að geta haft vinnuna heima. Og ég vinn og vinn, en nú fer þessari lotu senn að ljúka enda eins gott. Vöðvabólgan er að angra mig illilega, í fyrradag var ég bara með hálsríg, í gær var ég með hálsríg sem náði niður í herðablað og nú er ég með hálsríg sem nær niður í síðu. En hvað um það, ég er farin að sjá fyrir endann á verkefnunum og desember ætti að vera nokkuð skaplegur hjá mér svo kannski tek ég þá bloggið mitt til endurskoðunar, set inn fleiri tenga og hressi upp á útlitið. Best að sjá til hvað ég verð dugleg við það, allavega ætla ég ekki að eyða miklum tíma í kökubakstur enda allt útlit fyrir að við hjónin verðum bara tvö ein yfir hátíðarnar. Æfingar fyrir jólatónleikana eru á fullu og nú fara aukaæfingar að bætast við, sú fyrsta á laugardagsmorguninn og önnur á mánudagskvöldið. Tónleikarnir verða auðvitað stórglæsilegir eins og alltaf, með öllum kórunum sem gera hátt í 200 konur frá 5 ára aldri og upp úr og Hanna Björk frábær einsöngvari. Ég hvet alla til að mæta í Hallgrímskirkju 12. eða 13. des. og komast í jólaskap!

föstudagur, nóvember 03, 2006

 

Gaman, gaman!

Haldið þið að ég sé ekki að fara til London bráðum? Við Ella ætlum að skella okkur í skemmtilega helgarferð 23. - 26. nóv. Ætli við verðum ekki bara uppi um alla veggi og súlur þar, allavega er á dagskrá að fara í leikhús, skoða antíkmarkaði og söfn - og vitaskuld að líta í verslanir, þótt ekki væri nema bara í nærbuxnadeildina í M&S. Þetta með söfnin hef ég reyndar ekki rætt við ferðafélagann en hún er yfirleitt til í allt svoleiðis. Ég hef ekki nema einu sinni komið í National Gallery og svo er hótelið okkar í Bloomsbury, rétt hjá British Museum - kannski lítum við á eins og eina deild þar. Hef einu sinni komið þangað og eyddi þá dagsparti í egypsku deildinni en sá varla helminginn. Og ekki man ég hvort það var þar eða í National Gallery sem mig langaði svo að stela klósettpappír. Á hann var nefnilega letrað: "Government property. Do not remove from the premises." Kjörin leið til að hvetja fólk til að stinga á sig rúllu - hver færi að stela venjulegum klósettpappír? Ég tékka á þessu. Og þó, kannski yrði mér stungið inn ef upp kæmist.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?