mánudagur, febrúar 25, 2008

 

Smáhugleiðing

Þá tókst Íslendingum eina ferðina enn að velja lag í Evróvísjón sem er alveg eins og öll hin og Barbie strákurinn og mamma hans, eins og eitt leikskólabarnið komst svo skemmtilega að orði í einum undanúrslitaþættinum, fara til Serbíu fyrir okkar hönd. Ég veit ekki hvort verra hefði verið að senda laglausu söngkonuna og beru strákana í Hey, hey, hey í gríni, en þau í fullri alvöru og halda að við eigum séns. Og ég veit ekki hvort fer meira í taugarnar á mér, fólk sem er tapsárt eða fólk sem fyllist sigurhroka. En auðvitað kemur mér þetta hreint ekkert við. Annars vorum við, yngri sonurinn og ég, búin að ákveða að fara einu sinni og fylgjast með Evróvísjón, ég man bara ekki alveg hvaða ár höfðum ákveðið. Það er orðið dálítið langt síðan svo kannski verður það næsta vor og þá væri auðvitað ágætt að sigurvegararnir í Serbíu væru úr vestur eða norður Evrópu.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

 

Hvar var Kjartan Gunnarsson?

Hvar var Kjartan Gunnarsson spyrja þau Oddný Sturludóttir og Egill Helgason í Fréttablaðinu í dag. Það vill svo til að ég get svarað því. Á þeirri stundu sem þau eiga við, þ.e. þegar gamli góði Villi var að halda blaðamannafundinn var téður Kjartan staddur í þvottahúsinu Fönn í Skeifunni. En hvort hann var að sækja tau í þvott eða föt í hreinsun get ég ekki sagt til um því ég mætti honum í dyrunum þungum á brún þegar ég var að fara þaðan út.
Þá vitið þið það.

mánudagur, febrúar 11, 2008

 

Maður lendir nú í ýmsu

"Hann var góður drengur hann Gorgur litli þar til hann lenti í ferðalögum," sagði Kristín í Hringjarabænum (eða var það amma í Brekkukoti?) um Garðar Hólm.
"Hann var góður drengur hann Villi litli þar til hann lenti í þessu REI-máli," segi ég bara.
Annars hef ég sjálf lent í einu og öðru, yfirleitt fyrir eigin klaufaskap eða heimsku og alltaf þurft að bíta á jaxlinn og taka afleiðingunum.
En ég er auðvitað ekki fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóri.
Amen og hallejúja. Hafið það gott og farið varlega í vetrinum.

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

 

Saltkjöt og baunir, túkall!

Mikið rosalega var gott að fá saltkjöt og baunir þegar ég kom heim af kóræfingu klukkan að verða níu í gærkvöldi. Og eiginmanninum tókst að hafa þær fullkomnar. Þetta voru einfaldlega bestu baunir sem ég hef fengið í mörg ár og ég er strax farin að hlakka til sprengidagsins að ári liðnu, enda borðaði ég næstum því yfir mig. En bolludagur og sprengidagur eru að baki og nú tekur við fiskur og grænmetisfæði fram á vor! Eða þannig.
Það var stuttur fundur eftir kóræfinguna í gær með New York förunum og við fengum nóturnar að Carmina Burana. Fyrsta æfingin verður á sunnudaginn kemur og ég hlakka mikið til, það er ótrúlega gaman að fást við svona erfitt verkefni og tilhlökkunarefni að fá að flytja það í Carnegie Hall á sumri komanda, nánar tiltekið 14. júní næstkomandi.
Og nú fer kuldanum víst að linna, það er held ég spáð rigningu á morgun, vonandi bara það mikilli að allan snjó taki upp áður en frystir á ný. Það er svo sem varla hægt að segja að það sé snjór hér í höfuðborginni, rétt smáföl og allar umferðagötur marauðar, Nesvegurinn alveg auður en smásnjór á Tjarnarbólinu.
Ekki meira að sinni, lifið heil.

mánudagur, febrúar 04, 2008

 

Grín?

Einhver Halldór Eiríkur S. Jónhildarson skrifar í Velvakanda í Mogganum í dag. Mér er spurn hvort þetta eigi að vera grín en pistillinn er því miður ekkert fyndinn.
Hvað haldið þið?

sunnudagur, febrúar 03, 2008

 

Brrr.....

Í gær var kalt. Í dag er ekki eins skítkalt svo við drifum okkur í sund og hvílík dásemd. Og ég tók mig vel úr í nýja sundbolnum sem ég keypti á Tenerife. Annars sýnist mér að það verði ekkert lát á kuldanum, ég sé ekki betur en að það verði frost langt fram í vikuna. Er reyndar svolítið spæld því einhverra hluta vegna hélt ég að það kæmi rigning á morgun en það var greinilega reginmisskilningur. Mér finnst rigningin nefnilega góð en í þeim hópi eru víst sárafáir. Í dag þarf ég að hringja í tvo frændur og boða á ættarmótsfund Rauðhyltinga í næstu viku. Nú á að láta kyndilinn ganga til næstu kynslóðar svo við gamlingjarnir getum bara slakað á.
Ekki fleira að sinni. Lifið heil.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?