fimmtudagur, júní 19, 2008

 

Heima á Fróni

Þá erum við hjónakornin komin aftur heim á Frón eftir frægðarför til Nýju Jórvíkur. Fyrstu dagarnir voru ansi strembnir, æfingar, meiri æfingar og að lokum tónleikar. Það var auðvitað ógleymanleg upplifun að standa á sviðinu í Carnegie Hall að tónleikum loknum og sjá alla rísa úr sætum og klappa. Við fengum sem sagt frábær viðbrögð. Samt var svolítið skrýtið að fá bara eina æfingu með hinum kórunum sem bættust í hópinn í New York en þetta gekk samt allt saman svona nokkurn veginn upp.
Ég hafði svo tvo og hálfan dag í ábyrgðarleysi í stórborginni og þá daga notuðum við til að skoða okkur um. Það hefði verið gaman að verja meiri tíma í uppáhaldshverfunum mínum, Soho, Greenwich Village og Little Italy, en það verður aldrei á allt kosið. Og svo fórum við í þriggja tíma siglingu í kringum Manhattan og tókst að sólbrenna rækilega, bóndinn er enn þá eins og saltkjöt. Daginn sem haldið var heim ætluðum við á MoMa að sjá sýningu Ólafs Elíassonar en urðum frá að hverfa þar sem safnið er lokað á þriðjudögum (furðulegt í svona stórborg). En við héldum þá niður í Rockefeller Center og fengum okkur hádegisverð og gengum síðan yfir á Waldorf Astoria hótelið þar sem stytta Nínu Sæmundsen trónir fyrir ofan aðaldyrnar. Og sem sannir Íslendingar réðumst við að sjálfsögðu til inngöngu og skoðuðum okkur um í lobbýinu, sem er auðvitað rosalega flott, með glæsilegum veggmyndum og stórri mósaíkmynd á gólfinu. Til að kóróna allt var svo þarna píanó Cole Porters, sem hann samdi flest sín bestu lög á. Jón tók mynd af mér við það og ég ætla að fá hana útprentaða og kaupa fínan ramma utan um hana.
Heim komum við svo í gærmorgun, dauðþreytt, og sváfum langt fram á dag.
Í dag var svo þvegið og straujað og næsta úthald undirbúið - á morgun verður ekið til Akureyrar og síðan austur á Hérað á laugardaginn. Það verður áreiðanlega gott að vera á Hjaltastöðum í viku hvernig sem veðrið verður. En vonandi verður búið að slá einu sinni svo ástandið verði ekki eins og í fyrra, annars fara allavega nokkrir tímar á dag í heyskap! Og ég var að bóka fyrir okkur gistingu á heimleiðinni á Geirlandi á Síðu. Við gistum þar í smáhýsi fyrir nokkrum árum en nú er komið nýtt hótel þar og við máttum velja hvort við vildum smáhýsi eða hótelherbergi svo við ákváðum að prófa hótelið. Þetta er annars alveg yndislegur staður, móttökurnar síðast voru frábærar og verða það vonandi líka núna.
Þá er það ekki fleiri í bili - góðar stundir.

miðvikudagur, júní 04, 2008

 

Veruleikafirring

Nú er hluti þjóðarinnar í hysteríukasti af því að ísbjörn var felldur fyrir norðan. Reyndar sýnist mér margt af þessu vera fólk sem heldur að mjólkin verði til í búðinni og kindum sé slátrað til að fá ullina. (Í alvöru veit ég um fólk, reyndar ekki Íslendinga, sem gengur ekki í ullarflíkum af þeirri ástæðu.) Því spyr ég: Hvað myndu þessir sakleysingjar gera ef þeir væru á gangi í íslenskri náttúru og mættu skyndilega ísbirni? Reyna að klappa honum? Eða hvernig brygðust íbúar í Vesturbænum við ef þeir vissu af ísbirni lausum í nágrenni Ingólfstorgs? Myndu þeir vera gráti nær í sjónvarpinu og harma að dýrið hafi verið fellt? Maður líttu þér nær. Og hvernig átti svo að bjarga þessum ræfli? Jú, skjóta í hann svefnlyfi? Hvað svo? Hvað hefði svefnlyfið virkað lengi? Hvert átti svo að flytja sofandi ræfilinn, hvenær og hvernig? Gott og vel, ísbirnir eru í útrýmingarhættu og auðvitað væri það glæpur að drepa ísbjörn úti á ísnum eða hengja dýr á sundi, eins og gert var um árið. En ísbjörn uppi á landi er ísbjörn á ókunnugum stað við annarlegar aðstæður og viðbrögð dýrsins því önnur en í náttúrulegu umhverfi þess. Mér finnst þess vegna kórrétt að skjóta ræfilinn og ég er svo mikil villimanneskja að helst vildi ég nýta kjötið af honum - ég vildi gjarnan hafa ísbjarnarsteik í helgarmatinn - en ég vil auðvitað líka helst veiða hvali og finnst bæði rengi og hvalkjöt herramannsmatur, svo það er kannski ekki mark á mér takandi.

þriðjudagur, júní 03, 2008

 

Sitt lítið af hverju

Flutningurinn á Carmina Burana á sunnudagskvöldið tókst vel á báðum tónleikunum. Ég fékk staðfestingu á því í gærkvöldi því Garðar sagðist vera ánægður með okkur. Hann sagðist ekkert vera hræddur um að við stæðum okkur ekki með glans, hann væri aðeins kvíðnari með Kanana eins og auðvitað er skiljanlegt. Það bætist nýr kór (eða kórar) við nokkrum dögum fyrir flutninginn í Carnegie Hall. En auðvitað var æfing í gærkvöldi og svo verður önnur annað kvöld til að pússa hlutina aðeins betur og eftir það sameiginlega æfði hver kór fyrir sig lögin fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Við úr Domus Vox verðum reyndar bara á sameiginlegri æfingu á morgun en tökum svo okkar lög fyrir á mánudaginn frá fimm til sjö. Og ef við verðum ekki klárar á öllu þá verðum við einfaldlega ekkert frekar klárar á því þegar að tónleikunum kemur. Ég er sem betur fer nokkuð örugg á þessum lögum, það er kannski eitt sem ég þarf að líta aðeins betur á.
En svo að öðru máli.
10. bekkingar í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum eru að setja upp Aurasálina eftir Molieré og við, gömlu hjónin, fórum á frumsýninguna klukkan sex í dag. Það þarf auðvitað ekki að orðlengja það að sumir fóru hreinlega á kostum í aðalhlutverkinu. Honum kippir í kynið blessuðum.
Bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun Waldorfskólanemar.
Annað var það ekki í bili.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?