föstudagur, júní 26, 2009

 

Sögur úr Síðunni

Ég var að lesa bókin Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson, hafði heyrt fáeina lestra höfundar í útvarpinu fyrir ekki svo löngu. Það er skemmst frá því að segja að þetta er frábær bók og dásamleg lýsing á lífinu í sveit um og upp úr miðri síðustu öld. Þótt ég sé alin ekki alin upp í næsta nágrenni við Hvítársíðu var ekki laust við að ég kannaðist við sumt af þessu fólki úr sveitinni minni þegar ég var að alast upp. Karla sem reyndu með öllum ráðum að draga björg í bú þótt einhverjir stórlaxar úr Reykjavík væru með ána á leigu, og konur sem kunnu ráð við öllu, líka hvernig baka ætti heilhveitibrauð handa trúboða þótt heilhveiti væri ekki til á bænum. Þetta fólk var ekki að kippa sér upp við smámuni eins og að slökkviliðsbíllinn væri notaður til að skreppa á í bæinn og hugsaði sig ekki tvisvar um að taka að sér drengmeinleysingja sem hafði gerst helst til fingralangur í vegavinnu.
Ég mæli með Sögum úr Síðunni, hún er skrifuð af svo einlægri væntumþykju höfundar í garð fólksins og æskustöðvanna.

miðvikudagur, júní 17, 2009

 

Þjóðhátíðardagur

Hæ, hó, jibbíjæ og jibbíjæ, það er kominn 17. júní - og mér sýnist að það ætli að vera þokkalegt veður. Það verður að segjast eins og er að ég er orðin óttalega löt við að setja færslur hér inn, ég fer frekar á feisbókina og skrái hvað ég er að aðhafast.
Annars er ég svolítið döpur í dag, heyrði í gærkvöldi 20 ára gamalt slúður um ágætisfólk (flest allt) sem ég hélt að hefði verið kveðið niður fyrir langa löngu. Þetta rótarlega slúður angraði fólkið mikið á sínum tíma og ég hreinlega ætlaði ekki að trúa hvað svona nokkuð getur verið langlíft og reiddist all heiftarlega.
En, það er kominn 17. júní svo við skulum ekki vera í leiðu skapi, sólin skín og einhvers staðar syngja fuglar svo er hægt að óska sér nokkurs betra?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?