mánudagur, júní 26, 2006

 

Bella Islandia!

Það er ósköp gott að vera kominn aftur heim í hraglandann og ferska loftið! Ítalía er auðvitað alltaf ómótstæðileg og það var gaman að koma aftur til Marina di Massa. Þetta var ósköp ljúf vika en ég verð að viðurkenna að mér fannst svolítið erfitt að syngja við messu í dómkirkjunni í Massa strax á sunnudagsmorguninn - við vorum allar heldur framlágar eftir 12 tíma ferðalag daginn áður og svo var æfing strax á laugardagskvöldinu. En sunnudagsmessan gekk bara nokkuð stórslysalaust þótt rútan sem átti að sækja okkur kæmi ekki og fimm helstu söngpípurnar ásamt Agga undirleikara þyrftu að rjúka af stað í leigubíl til að byrja. Við hinar mættum svo í gloríunni og gátum tekið vel undir. Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag var æft strax að loknum morgunverði og á þriðjudaginn fór ég líka í einkatíma hjá Sigríði Ellu. Það er stórkostlega gaman að fá tilsögn hjá annarri eins dívu sem hefur alveg sérstakt lag að draga fram það besta í hverri og einni. Tónheyrnin, sem ég hef alltaf talið vera veiku hliðina mína, var í fínu lagi og ég var bara hæstánægð með sjálfa mig þegar tímanum lauk. Á fimmtudaginn var svo vaknað snemma og ekið til Bologna. Þar höfðum við ágætan tíma til að skoða miðborgina og kíkja í búðir áður en við fórum svo á fínan 5 stjarna veitingastað utan við borgina þar sem við fengum dýrindis kvöldverð að hætti innfæddra og sungum síðan fyrir matargesti - og gerðum það dável. Þaðan var svo haldið af stað laust fyrir miðnættið og komið á hótel Lido í Marina di Massa um hálfþrjúleytið um nóttina. Ég slapp auðvitað ekki við moskítóbit frekar en venjulega, ég vona a.m.k. að það hafi bara verið fluga sem nartaði svo rækilega í fótinn á mér uppi í Carrara-fjöllunum á miðvikudaginn að hann stokkbólgnaði og ég sárkenndi til þegar bólgan var að breiðast út. En strax á föstudagsmorguninn fór ég í apótekið og sýndi ungum og sætum apótekara minn bólgna vinstri fót og fékk hjá honum sterakrem og kælandi gel sem sló á bólguna. En bólgin er ég samt enn þá og kemst ekki í alla skó, þótt þetta sé samt mikið að lagast. Og nú bíðum við eftir yngri syninum og fjölskyldu sem eru á leiðinni frá London og væntanleg hingað á Tjarnarból einhvern tíma eftir miðnættið - það er held ég klukkutímaseinkun á vélinni. Þau halda svo áfram til Akureyrar strax á morgun.
Nú er nóg komið að sinni - meira seinna.

föstudagur, júní 16, 2006

 

Bella Italia!

Eldsnemma í fyrramálið flýg ég til Ítalíu þar sem ég mun dvelja í vellystingum praktuglega næstu vikuna. Söngur við messu í dómkirkjunni í Massa á sunnudaginn og svo verður frí fram á fimmtudag þegar við förum til Bologna og syngjum þar um kvöldið. Eða kannski ekki alveg frí, það verða auðvitað æfingar á hverjum degi og svo fer ég í söngtíma, en þess á milli er hægt að vera á ströndinni eða rölta um. Ég hlakka til og það verður ágætt að sleppa úr rigningunni hérna. Kannski verður sólin farin að skína þegar ég sný heim á ný. Nánar síðar.

fimmtudagur, júní 15, 2006

 

Pirringur

Mikið ofboðslega pirrar mig auglýsingin með litla grenitrénu sem dreymir um að verða pappírinn sem DV er prentað á. Hvað er fólk eiginlega að hugsa? Djöfuls viðbjóður!

sunnudagur, júní 11, 2006

 

Íslensk pólitík

Það er eiginlega ekki hægt að vera í fýlu út í pólitíkina hérna, hún er allt of hlægileg til þess.
Þorir einhver að veðja að Halldór endi ekki í Seðlabankanum í haust? Og vill einhver giska á hvers vegna Valgerður lýsir þvi yfir að hún sækist ekki eftir formannsembættinu á flokksþinginu í ágúst? Glorí hallelúja!

föstudagur, júní 09, 2006

 

Lífsháski

Í gær lenti ég í bráðum lífsháska. Þannig var mál með vexti að ég þurfti að skreppa bæjarleið og ók galvösk af stað á mínum fjallabíl (Toyota RAV4) áleiðis upp á Krókháls. En þar sem ég ek í mestu makindum, og að ég held á löglegum hraða, norður Hofsvallagötu sé ég hvar strætó (sennilega leið 11) kemur eftir Hagamelnum. Þar sem biðskylda er á Hagamel við Hofsvallagötu hélt ég ótrauð áfram án þess að hægja ferðina, en þegar ég kem að Hagamelnum heldur strætó ótrauður áfram yfir götuna og ég hélt hreinlega að hann myndi koma inn í hliðina á mér. Mér tókst þó að sleppa með því að gefa í og sveigja aðeins en á eftir skalf ég og nötraði eins og strá í vindi. Þegar skjálftinn var rénaður greip mig alveg hrikaleg reiði. Hvað var maðurinn að hugsa? Fyrst ætlaði ég mér að hringja í Strætó og klaga þetta gerpi þegar ég kæmi heim - en þá mundi ég að ég hef einu sinni áður hringt í strætó og klagað bílstjóra og þá með þeim afleiðingum að maðurinn var rekinn. Reyndar var kvörtunin frá mér víst bara kornið sem fyllti mælinn. Þess vegna gerði ég auðvitað ekki neitt í málinu, en það breytir ekki þeirri staðreynd að um götur Reykjavíkur ekur brjálaður og stórhættulegur strætóbílstjóri sem getur stefnt fjölda manns í lífshættu. Ég skil ekki hvernig svona fífl fá yfirleitt bílpróf, hvað þá heldur meirapróf eins og þarf til að aka almenningsvagni! Og þar hafið þið það og hana nú!

þriðjudagur, júní 06, 2006

 

Komin heim í heiðardalinn...

...eða öllu heldur á útnesið eftir frábæra vikudvöl á Jótlandi. Allt var eins og best verður á kosið nema kannski veðrið - sem var dálítið rysjótt en við höf'ðum auðvitað með okkur hlý föt. Annars fengum við að mig minnir þrjá yndislega daga í sól og sumaryl og hinir dagarnir voru svo sem ekkert slor. Við lentum ekki í rigningu nema fyrsta daginn. Reyndar einn daginn þegar við vorum búnar að flatmaga í sólbaði heima við bústaðinn og ákváðum að skreppa í göngu á ströndinni til að bleyta aðeins tærnar kom þessi líka hellidemba og rosalegt þrumuveður einmitt þegar við vorum að koma okkur af stað. Við ætluðum bara að bíða veðrið af okkur og spila rummikub á meðan, en rigningin ætlaði engan enda að taka svo við spiluðum, held ég, frá klukkan fjögur síðdegis til klukkan að verða fjögur um nóttina með örstuttu matarhléi. Enda var öll kvöld setið við að spila, annað hvort skrafl, yatzy eða rummikub en spilin sem ég keypti fyrsta daginn til að við gætum spilað póker kom ég með ósnert heim. Sem sagt frábært frí.
En það er vissulega eitthvað undarlegt við pólitíkina hérna á Fróni. Ég var hálft í hvoru fegin að stinga bara af strax og ég var búin að kjósa en hringdi svo sem heim daginn eftir til að heyra um úrslitin - þau voru nokkuð á þann veg sem ég bjóst við og ég er fegin að "mitt fólk" kom vel út úr kosningunum í höfuðborginni. Hérna á Nesinu eru auðvitað bara tveir listar og kosningarnar fara alltaf á sama veg. En atburðir síðustu daga eru eins og léleg sápuópera. Ekki get ég sagt að mér hafi litist vel á að fá Finn Ingólfsson inn í pólitíkina á ný - hafi hann einhvern tíma yfirgefið hana eins og spurt var í útvarpinu í fyrradag. En með fjölmiðlafundi Halldórs í gær tók þó steininn úr. Hvers vegna í ósköpunum er ekki rofið þing og boðað til kosninga? Jú, af einfaldri ástæðu. Yrði það gert núna er nokkuð öruggt að Framsóknarflokkurinn líður undir lok. Hins vegar er Guðni Ágústsson góður eins og alltaf, lýsir því yfir að hann sé í blóma lífsins "stjórnmálalega séð" og ætlar ekki að láta deigan síga, enda vinsælasti þingmaður Framsóknar að mig minnir. Nú er bara spurning hvort stjórnarandstaðan geti með hjálp einhverra óánægðra stjórnarþingmanna fengið samþykkt vantraust á ríkisstjórnina. Ég efast hins vegar um það en bíð spennt eftir næsta hluta þessa bráðspennandi framhaldsleikrits.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?