sunnudagur, apríl 15, 2007

 

O.J.

Ef O.J. Simpson væri vinur minn veit ég ekki hvort ég myndi hafa hátt um það.

föstudagur, apríl 13, 2007

 

So It Goes

Kurt Vonnegut jr. er allur, blessaður karlinn. Fyrstu kynni mín af honum sem rithöfundi voru þau að ég var að lesa einhverja ameríska kilju sem fjallaði um hóp af ráðvilltum krökkum og þeim var tíðrætt um einhvern Kurt Vonnegut jr., sem ég hafði aldrei heyrt getið um og hélt í sakleysi mínu að væri bara tilbúið nafn hjá höfundi bókarinnar. Ég man reyndar ekki lengur hvaða bók þetta var eða eftir hvern. Nú, jæja, dag einn er ég stödd í bókabúð sem þá var í Bankastræti að leita mér að léttri lesningu og rekst ég þá ekki á bókina Player Piano eftir Kurt Vonnegut jr. Það þarf ekki að orðlengja það að ég keypti hana og las í einum spreng og varð ekki fyrir vonbrigðum. Eiginmaðurinn varð líka jafn hrifinn og eftir það var Kurt Vonnegut jr. í hávegum hafður á heimilinu og hillumetrarnir sem hann tók í bókaskápnum lengdust stöðugt. Ég held reyndar að enginn rithöfundur hafi haft eins afgerandi áhrif á lífsviðhorf mitt, kannski hef ég bara verið svona seinþroska en ég mótaðist mest á aldrinum 25 til 35 ára. Allavega finnst mér ég þá hafa myndað mér flestar skoðanir sem mér finnst réttar enn í dag.
Og svo kom að því árið 1987 að hér var haldin bókmenntahátíð og haldið þið ekki að þar hafi mætt til leiks sjálfur Kurt Vonnegut. Því miður var ég upptekin í vinnu og komst ekki til að hlusta á hann, en meðan á bókmenntahátíðinni stóð var auglýst að gúrúinn áritaði bækur sínar í Eymundson í Austurstrætinu. Ég bað eiginmanninn lengstra orða að taka nú bækurnar og hitta mig niður í Austurstræti þegar stundin rann upp - mig minnir meira að segja að ég hafi stolist of snemma úr vinnunni til að missa ekki af þessu. Þegar ég mætti svo við Eymundson brá mér dálítið í brún því þar var löng biðröð fyrir framan meistarann og svo hafði bóndinn bara gripið með sér tvær eða þrjár bækur sem mér fannst ekki ná nokkurri átt. Ég brenndi því heim og sópaði bókunum úr hillunni ofan í kassa og ók beint niður í bæ aftur. Loksins kom svo röðin að mér. Ég tíndi bækurnar upp úr kassanum, meistarinn leít á mig og ég sá ekki betur en að hann glotti. Hann áritaði kiljurnar ósköp ljúflega og setti * (asshole) við á sinn sérstaka hátt. Svo spurði hann hvers vegna í ósköpunum ég væri með allar þessar kiljur, af hverju ég keypti ekki hard cover bækur. Kiljurnar væru ómögulegar, þær dyttu úr límingunni og svo týndust úr þeim síður og fleira og fleira. Það kom svolítið á mig, en svo stundi ég upp að þá hefði ég hreinlega ekki efni á að kaupa allar bækur sem kæmu út eftir hann og þá brosti hann út að eyrum. Eftir það spjölluðum við kurteisislega í svo sem hálfa mínútu, ég tíndi bækurnar aftur upp í kassann og sneri hæstánægð heim. So It Goes.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

 

Páskahátíðin að baki

Þá er páskahátíðin að baki. Við höfðum það næstum því of gott á Akureyri hjá yngri syninum og fjölskyldu. Veðrið var líka hreint himneskt - svolítið kalt samt - og við fórum oft í gönguferð, stundum lengri en til stóð í fyrstu. Og við þræddum líka galleríin í listagilinu og fórum í leikhús.
En svo var líka ágætt að koma heim og hefja hversdagsleikann aftur eftir alla afslöppunina.
Það lítur út fyrir að við hjónin verðum mikið á ferðinni í sumar, nánast aldrei heima. Nema kannski í maí - en varla bæði samt. Líklega förum við austur á Hérað daginn eftir að ég kem frá Danaveldi - ég var örugglega búin að blogga um sumarbústaðinn í Norður-Sjálandi - og verðum þar í viku. Ég hreinlega man ekki hvenær ég fór síðast í frí í tvær vikur samfleytt svo það er eins gott að vinna nóg fram að þeim tíma. Júlí fer í að hendast hitt og þetta og svo er það Kanadaferðin í ágúst. Það er bara vonandi að sumarið verði þokkalega gott hérlendis sem erlendis!
Ég held að ég segi ekkert um pólitíkina núna - þá fer ég bara að æsa mig.

sunnudagur, apríl 01, 2007

 

Húrra Hafnarfjörður!

Hafnfirðingum bar gæfa til að kjósa gegn stækkun álversins. Hins vegar er það ofvaxið skilningi mínum að 6294 Hafnfirðingar hafi kokgleypt hræðsluáróðurinn sem Alcan lét dynja yfir bæjarbúum síðustu vikurnar. Ég hélt að þeir myndu líta til nágrannans, Reykjanesbæjar, sem átti að fara í eyði þegar herinn færi, en blómstrar nú sem aldrei fyrr þótt mörg hundruð manns hafi misst vinnuna hjá hernum. Málið var einfaldlega að þar brettu menn upp ermarnar, sneru vörn í sókn og búin voru til ný störf eða fólki útveguð önnur vinna. Og það var ekki eins og Alcan ætlaði að loka sjoppunni í hrauninu strax í dag ef stækkuninni væri hafnað, verksmiðjan mun starfa í tíu til tuttugu ár enn, enda þriðja stærsta verksmiðja fyrirtækisins í Evrópu. Væri nú ekki ráð að hugsa fram í tímann? Hvernig vilja Hafnfirðingar hafa bæinn að tíu árum liðnum? Enn og aftur til hamingju, þið 6382 sem björguðuð bænum ykkar!

Og svo ég snúi mér aðeins að væntanlegum alþingiskosningum. Ég er, og hef alltaf verið, á móti framboðum sem hafa bara eitt baráttumál eins og aldraðir og öryrkjar og Íslandshreyfingin. Gott dæmi um slíkan flokk er Frjálslyndi (afturhalds-) flokkurinn sem á sínum tíma var stofnaður vegna óánægju með kvótamálið, sem allir nema ráðherrarnir sáu hversu banalt var fyrir landvinnufólk og sjómennina sem sjá um að veiða fiskinn í sjónum. En nú virðist sá ræfils- flokkur hafa gleymt upphafi sínu og fundið sér nýtt baráttumál - andstöðu gegn innflytjendum. En ef stefnumál þeirra, takmörkun á fjölda innflytjenda, nær fram að ganga verða þeir að vera rosalega duglegir að geta börn og koma þeim til manns á tvöföldum eða þreföldum hraða ef innfæddir, ljóshærðir og bláeygðir Íslendingar eiga að geta sinnt öllu sem gera þarf í þjóðfélaginu. Jæja, þetta með ljóshærða og bláeygða Íslendinga er kannsi fullsterkt til orða tekið hjá mér en mér finnst ýldukeimurinn ansi sterkur af málflutningi þeirra. Annars er mitt vandamál í kosningunum að ég treysti engum stjórnmálaflokki til að hlaupa ekki í eina sæng með íhaldinu að kosningum loknum, jafnvel ekki VG. Annars væri skárra að fá þetta stóran flokk til að stjórna með íhaldinu, það væri þá ekki hægt að kúga hann vegna smæðarinnar eins og gert hefur verið með Framsókn í þessu fjandans samstarfi, sem einfaldlega er ættað úr því neðra!

En ekki meira raus í bili, stjórnmál fara hreint yfirþyrmandi mikið í taugarnar á mér þessa dagana og ég kvíði tímanum fram að kosningum. Vinkonur mínar eru nefnilega svo svakalega pólitískar að þær æpa og garga á mig þegar ég er ekki sammála þeim í aðdáuninni á Samfylkingunni - sem er farin að minna mig óþægilega á Framsóknarflokkinn í gamla daga, opin í báða enda og svarar já, já og nei, nei við öllu sem spurt er að.

Og enn og aftur, gleðilega páska og megi sól og sæla umlykja ykkur fram að kosningum - og jafnvel eftir þær líka.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?