laugardagur, desember 29, 2007

 

Milli jóla og nýárs

Mér finnst tíminn milli jóla og nýárs alltaf svolítið skrýtinn, svona þegar tvær hátíðir ná saman, eða önnur hátíðin fellur inn í hina, því jólunum lýkur auðvitað ekki fyrr en á þrettándanum.
En jólin voru auðvitað yndisleg eins og alltaf, málið er að vera ekki með neinar væntingar, jólin koma nefnilega innan frá hvað sem er í matinn og hverjar svo sem gjafirnar eru. Það var gott að eyða aðfangadagskvöldi með fjölskyldunni og það var líka gott að koma heim um miðnættið og hella sér út í lestur. Ég fékk nefnilega bækur í jólagjöf og þar að auki snyrtidót - en rúsínan í pylsuendanum var grísinn syngjandi sem ég fékk frá jólasveininum - eða öllu heldur eiginmanninum. Hann situr núna á borðstofuborðinu og einu sinni á dag syngur hann fyrir mig "My Girl" með undurljúfri svínsröddu.
Og nú eru áramótin á næsta leiti, við erum búin að viða að okkur því sem við þurfum með villibráðinni og nú taka við vangaveltur um matreiðsluaðferð. Ég hallast að því að marinera hreindýravöðvann í olíu og jurtakryddi í fáeina tíma, brúna aðeins á pönnu og stinga svo í ofninn.
Sem sagt, við á Tjarnarbóli ætlum að taka nýja árinu opnum örmum en ég er alveg hætt að heita neinu um áramótin - er ekki málið bara að reyna eftir bestu getu að vera almennileg manneskja?

sunnudagur, desember 23, 2007

 

Jólin, jólin alls staðar

Já, nú eru jólin alls staðar á fjórðu hæðinni hér á Tjarnarbóli. Jólatréð í stofu stendur, en það glampar ekki á stjörnuna heldur á Borgarnesengilinn á toppnum. Gamalt og nýtt jólaskraut er komið á sinn stað og eldhúsglugginn hefur ekki verið svona fallegur hjá mér í mörg ár, svo er Glitni fyrir að þakka. Kannski ég setji bara skilti í gluggann: "Þessi eldhúsgluggi er í boði Glitnis." Hangiketið var soðið og fyrsta portion snædd í kvöld og smakkaðist svona líka vel, ég hlakka til að snæða afganginn á jóladag.
Í fyrsta sinn í rúmlega fjörutíu ár borðum við ekki jólamatinn heima. Frumburðurinn og hans ágæta kærasta verða með okkur gömlu hjónin í mat - og hann ekki af verra taginu - hreindýrasteik af læri sem var reyndar úrbeinað hér í eldhúsinu í fyrrakvöld. Á móti koma þau í málsverð til okkar á annan í jólum. Ég hef á tilfinningunni að þetta verði aldeilis ljómandi hugguleg fjölskyldujól.
Kæru vinir sem þetta lesið, ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og megi þið vera umkringd friði og kærleika.

mánudagur, desember 17, 2007

 

Hégómi

Á aðventunni fyrir ansi hreint mörgum árum, þegar yngri sonur minn hefur verið svona fjögurra eða fimm ára gamall, var honum mikið í mun að gefa móður sinni eitthvað fallegt og þráspurði hvað ég vildi fá í jólagjöf. En eins og svo oft var það ekkert sérstakt sem mig langaði í, ég vissi að ég fengi trúlega einhverjar forvitnilegar bækur og hlakkaði til að slaka á yfir hátíðisdagana við lesturinn. Svo þar af leiðandi svaraði ég yfirleitt: "Bara einhvern hégóma, elskan mín." Dagarnir liðu og jólin nálguðust og þar kom að eiginmaðurinn hélt í bæinn með synina svo þeir gætu keypt jólagjöf handa mér. Hann vissi auðvitað í hvers konar búðir væri réttast að fara og þegar feðgarnir stíga inn í stóra snyrtivörubúð í Austurstrætinu kemur afgreiðsludama á móti þeim og spyr hvað hægt sé að gera fyrir þá. Áður en bóndinn gat komið upp orði var sá litli fjótur að bera upp erindið. "Við ætlum að fá einhvern hégóma handa mömmu." Þetta vakti víst mikla athygli allra viðstaddra og jólagjöfin mín í þetta sinn var stórt glas af uppáhaldsilmvatninu mínu þá, L'air de Temps frá Ninu Ricci. Það var vissulega hégómi sem mér þótti vænt um.
Það skal tekið fram að þótt drengurinn sé nú kominn á fertugsaldur er hann enn býsna naskur að finna einhvern hégóma handa mömmu sinni.

þriðjudagur, desember 11, 2007

 

Velkomin heim

Mér finnst alltaf svo notalegt að heyra sagt: "Góðir farþegar, velkomnir heim," þegar maður kemur frá útlöndum. Þótt það sé gaman að skreppa aðeins burt er samt alltaf best að koma heim. Já, ég var nefnilega að koma frá Kaupmannahöfn aðfaranótt mánudagsins eftir vellukkaða ferð til fyrrverandi höfuðborgar okkar. Ég þurfti sem sagt að vakna klukkan fjögur á fimmtudagsmorguninn og Jón skutlaði mér suður í Kópavog til kórsystur minnar sem ók okkur síðan til Keflavíkur. Sem betur fer hafði ég getað sofið í rúma fjóra tíma um nóttina svo ég var ekki átakanlega illa haldin og svo tókst mér að blunda aðeins á leiðinni út. Ég var þar af leiðandi ekki alveg tilbúin að leggja mig þegar á Hótel 27 kom, um hádegisbil að dönskum tíma. Við herbergisfélagarnir fórum því í gönguferð niður á Strik og lituðumst aðeins um, en vorum ákveðnar í að vera komnar aftur upp á herbergi um fjögurleytið til að hvíla okkur undir óperuna um kvöldið. Við klæddum okkur í okkar besta púss og borðuðum kvöldverð á ljómandi góðu veitingahúsi rétt hjá hótelinu og tókum svo bíl þaðan út í Óperuna í Holmen. Og nýja óperuhúsið þeirra Dananna er í einu orði sagt stórkostlegt. Glæsileg hönnun sem er heill kafli út af fyrir sig og ég ætla ekki að lýsa hér nánar. Og það var gaman að sjá fallegu ljósakúlurnar sem Ólafur Elíasson hannaði í húsið. Merkilegt nokk var ég óforvarendis kynnt fyrir móður Ólafs áður en ég hélt heim og gat sagt henni hvað ég hafði orðið hrifin af þessari sköpun hans. Og svo ég hætti nú að tala um húsið og hönnunina var uppsetningin á Don Carlos næstum ólýsanleg upplifun. Tímalaus og gat gerst hvar sem er í heiminum, Spánn var auðvitað landið, en áherslan var samt á ógninni sem auðvitað leynist svo víða. Ég sá Kristinn okkar Sigmundsson í anda sem inquistatorinn - en sá sem fór með hlutverkið stóð auðvitað líka vel fyrir sínu, Kristinn er bara eftirsóttur í hlutverkið. Og söngvararnir fóru allir með hlutverk sín eins og best verður á kosið. Ég sat sem bergnumin í rúma þrjá tíma og það segir nokkuð mikið um stykkið. Það var gott að leggjast út af um kvöldið og við stöllurnar sváfum yfir okkur næsta morgun og misstum af morgunverðinum. Þá kom sér vel að vera vel kunnug borginni svo við fórum bara á H.C Andersen café sem var þarna rétt hjá og fengum okkur ágætt morgunkaffi. Eftir það fór ég með Hólmfríði herbergisfélaga í göngu um Istedgade sem er orðin ansi breytt, pornóið er bara rétt við endann sem er nær járnbrautarstöðinni og svo taka við skemmtilegar búðir og hönnuðir með vinnustofur. Ég hafði næstum keypt mér slá með hlébarðabót af ungum hönnuði en ákvað að athuga hvort ég héldi áfram að hugsa um hana þar til daginn eftir - og svo var ekki. Slánnar góðu fær því einhver önnur að njóta, en falleg var hún. Þegar við vorum komnar nógu langt upp Istedgade fórum við yfir á Vesterbrogade og litum í búðirnar þar (herbergisfélaginn þekkti Kaupmannahöfn nefnilega ekki neitt) og þar keypti ég mér úlpu, bol og skó - auðvitað á miklu betra verði en hefði fengist á Strikinu. Um kvöldið fórum við nokkuð margar á elsta ítalska veitingahúsið í Köben og ég áttaði mig á að ég hafði komið þar áður. Þar borðuðum við saman og sungum við góðar undirtektir gestanna (flestra) og veitingastjórinn, eða tannálfurinn eins og við kölluðum hann, söng líka, bæði einn og dúetta með Hönnu Björk. Hún sló auðvitað í gegn eins og hennar var von og vísa. Farið var í rúmið um miðnættið og að þessu sinni var vaknað í morgunverðinn daginn eftir, sem var laugardagur.
Morgunverðurinn á Hótel 27 var býsna góður og fjölbreyttur og ég get mælt með þessu hóteli, það er í Löngangsstræde rétt við Ráðhústorgið. Ég frétti svo að gamall vinnufélagi minn er umboðsmaður fyrir hótelið og því er það mikið sótt af Íslendingum. Mér dettur í hug að þetta sé Missionshótelið í Löngangsstræde sem búið er að gera svona nýtískulegt. Á laugardaginn hafði Hólmfríður ákveðið að hitta dóttur sína og fara með henni í verslunarmiðstöðina Fields svo ég ákvað að vera ekki að hengja mig á neina eða neinar úr hópnum og njóta dagsins ein í rólegheitum og það gerði ég. Ég gekk niður Strikið og skoðaði þar í búðir, rölti svo í rólegheitum um jólamarkaðinn í Nýhöfninni og keypti eitt og annað smávegis. Aftur upp á hótel að hvíla mig aðeins og hélt svo áfram göngunni eftir að hafa fengið mér léttan hádegisverð á H.C. Andersen café. Kaupmannahöfn er alltaf jafn aðlaðandi og þar er hægt að vera eins og heima hjá sér. Ég velti fyrir mér að taka strætó út á Nörrebro en taldi svo skynsamlegra að fara heim og hvíla mig undir kvöldið því þá fórum við í julefrokost í Gröften í Tívolí og skoðuðum svo jólamarkaðinn þar, sem auðvitað er algert ævintýraland. Og vitaskuld keypti ég jólakúlur og fleira smáræði sem tilheyrir jólunum.
Á sunnudagsmorguninn skrapp ég eftir morgunverðinn og keypti slatta af ostum (dönskum Havarti, frönskum Brie og jólaosti) til að fara með heim. Ekki af því að þeir séu eitthvað betri en íslenskir ostar en ég fæ tvo Havarti í Danmörku fyrir minna verð en einn slíkan hér heima. Svo var bara pakkað niður og tékkað út af hótelinu. Við þurftum að fá að geyma töskurnar og konan sem sá um að taka á móti þeim var vægast sagt frekar úrill yfir öllum þessum farangri - það voru nefnilega fleiri en við í þessum sporum. Við Hólmfríður kíktum aðeins í búðir og hún keypti gjöf handa dóttur sinni en ég lét mér nægja að skoða. Svo fengum við okkur smörrebröd í hádegisverð og svo heim á hótel að skipta um föt fyrir tónleikana. Þá fyrst varð vinkonan í farangursmóttökunni ergileg. Hún hélt nefnilega að við værum að koma til að taka töskurnar en þegar ég sagði að það yrði ekki gert fyrr en klukkan hálfsjö heimtaði hún að fá að tala við skipuleggjandann, sem auðvitað fullvissaði hana um að það hefði verið gert ráð fyrir þessu þegar hótelið var bókað svo blessuð konan varð að sætta sig við það. Við urðum svo að skipta um föt á snyrtingunni í lobbíinu og sumar létu sér nægja að gera það í almenningnum. Svo var farið með rútu í St. Pauls kirkjuna og tekin létt æfing en tónleikarnir voru klukkan fjögur. Jú, það mættu bara þó nokkrir í kirkjuna, flest auðvitað Íslendingar en einhverjir Danir slæddust víst með. Mér fannst mjög gaman að hitta þarna kæra, gamla vinkonu og geta spjallað aðeins við hana. Eftir tónleikana var farið á Hviids Vinstue og allar fengu sér glögg nema ég sem drakk bara rauðvín. Og þar var ég kynnt fyrir móður Ólafs Elíassonar sem var þar með konu sem ég þekki en hef ekki séð í ein þrjátíu ár og ég kalla það gott að við skyldum átta okkur hver á annarri. Við þrjár lentum á þvílíku spjalli að tíminn flaug áfram og svo var mál til komið að fara upp á hótel, sækja farangurinn og koma sér út á flugvöll. Og þegar á hótelið var komið var úrilla vinkonan farin heim svo það gekk ljúflega en frekar seint að fá töskurnar afgreiddar. Ég var orðin ansi orkulítl þegar á Kastrup var komið en eftir að hafa borðað svona líka ljómandi góða síldarfernu lagaðist ástandið. Flugið heim var á réttum tíma, við lentum í Keflavík nákvæmlega 00.20 eins og áætlunin sagði. Var samferða skemmtilegum konum í bæinn og komin heim um hálfþrjúleytið. Eiginmaðurinn tók vel á móti mér og haldið þið ekki að hann hafi verið búinn að laga til og gera svona ljómandi vel hreint. Ég þarf víst ekki að orðlengja að ég varð afar fegin, því þegar ég fór var frekar draslaralegt um að litast. Sofnaði samt ekki fyrr en klukkan að verða fjögur og var rosalega þreytt að mæta á æfingu klukkan fimm í gær en þreytan rjátlaðist af mér við sönginn. Nú er bara ein æfing eftir á morgun og svo tónleikarnir á föstudagskvöldið.
Og hér segi ég amen eftir efninu. Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?