fimmtudagur, ágúst 28, 2008

 

Skróp

Við hjónin fórum ekki í bæinn í gær til að fagna silfurdrengjunum en fögnuðum þeim því betur hér heima fyrir framan sjónvarpið. Og þegar þeir flugu hérna yfir dansaði ég stríðsdans á svölunum og veifaði þeim, en ég býst varla við að þeir hafi horft mikið út um gluggana á flugvélinni svo þeir hafa trúlega ekki séð mig. En strákarnir áttu þetta fullkomlega skilið - þá á ég við móttökurnar í bænum, ekki það að ég gerði mig að fífli á svölunum.
Lifið heil - það er langbest.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

 

Allt mér að kenna!!!

Ég verð víst að bera ábyrgðina á tapinu gegn Frökkum, það er nefnilega segin saga að þegar ég horfi á útsendingu tapa blessaðir drengirnir. Ég hafði ekki horft á einn einasa leik fram að þessu - nema hluta af leiknum gegn Spánverjum í seinkaðri útsendingu þegar leiknum var lokið og sigurinn í höfn. Í morgun lagði ég á mig að vakna klukkan hálfátta og horfa og hvað gerðist? Ég hefði betur hallað mér á hitt eyrað og sofið áfram.
En strákarnir eru auðvitað engu að síður þjóðhetjur - gott hjá Guðmundi þegar hann segir að þeir hafi ekki verið að tapa gulli, þeir hafi verið að vinna silfur. Áfram Ísland!

föstudagur, ágúst 22, 2008

 

Handboltatár

Ég er ekki mikill íþróttafrík en í dag fékk ég gæsahúð, kökk í hálsinn og tár í augun.
Ef ég væri rík flygi ég til Kína í fyrramálið en þar sem ég er það ekki held ég að ég leggi á mig að vakna eldsnemma á sunnudagsmorguninn til að horfa á úrslitin. Áfram Ísland!
Og hlýðið nú orðum forseta vors og haldið þjóðhátíð alla helgina, en gangið hægt um gleðinnar dyr.
Góðar stundir og gleðilega menningarnótt sem reyndar lýkur þegar náttsett er orðið.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

 

Afturganga

Mér dauðbrá áðan þegar ég heyrði í fréttunum að Ólafur F. væri afturgenginn, þótt mér hafi fundist hann frekar fölur að undanförnu og svolítið eins og zombie. En svo var málið bara það að hann var aftur genginn í Frjálslynda afturhaldsflokkinn.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

 

Á Seltjarnarnesi

Mikið lifandis ósköp er ég fegin að búa ekki í Reykjavík. Hér á Seltjarnarnesi hefur Sjálfstæðisflokkurinn nefnilega ríkt undanfarna áratugi - ég man ekki hversu lengi, en þegar Sigurgeir lét af embætti bæjarstjóra hafði hann verið við völd lengur en Kastró. Og einhvern tíma var verið að ræða það í heita pottinum að nú væri Sigurgeir að fara að hætta. "Ég kýs hann nú samt," sagði þá einn karlinn. Og þó svo að ég hafi ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn og muni aldrei gera má allavega treysta því að hér verður ekki skipt margoft um bæjarstjórn á kjörtímabilinu!

föstudagur, ágúst 01, 2008

 

Veðurfréttir og skrautbúningur

Veðurblíðan hér á svölunum á Tjarnarbóli undanfarna daga hefur verið með þeim ósköpum að ég helst ekki við þar sökum hita lengur en í stundafjórðung í einu og þá aðeins með hatt á höfðinu. 24 stig í skugganum er nánast föst hitatala! Þetta er alveg ótrúlegt og ég hefði aldrei trúað því að á Íslandi flýtti maður sér að draga fyrir til að loka sólina úti og hreinlega óskaði þess að vera með loftkælingu í íbúðinni.
Annað er það að frétta að á vísir.is var frétt um að Dorrit hefði klæðst dýrindis "skrautbúningi" við embættistöku Ólafs Ragnars í dag. Ég gat ekki stillt mig um að senda athugasemd og leiðrétta þetta og stuttu seinna fékk ég tölvupóst þar sem mér var vinsamlega bent á að skoða fréttina aftur. Og, viti menn (og konur), það var búið að leiðrétta þetta. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég geri athugasemd við frétt á vísir.is en í hitt skiptið var það vegna þess að greinin var full af stafsetningar- og málvillum. Það var reyndar leiðrétt líka en án þess að mér væri bent á það.
Svo óska ég öllum nær og fjær ánægjulegrar verslunarmannahelgar.
Lifið heil.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?