föstudagur, júlí 24, 2009

 

Að ættarmóti loknu

Ég vil bara láta alla vita að um síðustu helgi var ég á ættarmóti Rauðhyltinga austur á Héraði. Án þess að vilja gorta neitt sérstaklega mikið verð ég að segja að þessir ættingjar mínir eru með skemmtilegra fólki sem ég þekki svo þetta var einkar velheppnuð samkoma - 346 manns mættir. Það eina sem hægt væri að kvarta yfir var veðrið - en þá var bara að klæða sig rétt og una því að búa á Íslandi. Við hjónakornin ásamt flestum af fjölskyldunni vorum í ljómandi góðu húsi ekki langt frá mótsstaðnum, einungis eldri sonurinn og hans indæla frú þraukuðu í tjaldi allan tímann. Held samt að þeim hafi þótt gott að flytja sig til okkar upp í Dali II að ættarmóti loknu. Ég gæti trúað að þarna hafi verið sett Íslandsmet í kjötsúpueldun því sameiginlegi kvöldverðurinn á laugardagskvöldið var íslensk kjötsúpa, það voru snillingar sem löguðu hana og geri aðrir betur en að elda kjötsúpu fyrir 300 manns. Svo voru líka fengnir pítsuofnar svo að börn og matvant fólk gæti fengið sér pítsu ef kjötsúpan féll ekki í kramið. En það er einstaklega gott að vera hluti af svona hópi. Bestu þakkir, kæru ættingjar.

föstudagur, júní 26, 2009

 

Sögur úr Síðunni

Ég var að lesa bókin Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson, hafði heyrt fáeina lestra höfundar í útvarpinu fyrir ekki svo löngu. Það er skemmst frá því að segja að þetta er frábær bók og dásamleg lýsing á lífinu í sveit um og upp úr miðri síðustu öld. Þótt ég sé alin ekki alin upp í næsta nágrenni við Hvítársíðu var ekki laust við að ég kannaðist við sumt af þessu fólki úr sveitinni minni þegar ég var að alast upp. Karla sem reyndu með öllum ráðum að draga björg í bú þótt einhverjir stórlaxar úr Reykjavík væru með ána á leigu, og konur sem kunnu ráð við öllu, líka hvernig baka ætti heilhveitibrauð handa trúboða þótt heilhveiti væri ekki til á bænum. Þetta fólk var ekki að kippa sér upp við smámuni eins og að slökkviliðsbíllinn væri notaður til að skreppa á í bæinn og hugsaði sig ekki tvisvar um að taka að sér drengmeinleysingja sem hafði gerst helst til fingralangur í vegavinnu.
Ég mæli með Sögum úr Síðunni, hún er skrifuð af svo einlægri væntumþykju höfundar í garð fólksins og æskustöðvanna.

miðvikudagur, júní 17, 2009

 

Þjóðhátíðardagur

Hæ, hó, jibbíjæ og jibbíjæ, það er kominn 17. júní - og mér sýnist að það ætli að vera þokkalegt veður. Það verður að segjast eins og er að ég er orðin óttalega löt við að setja færslur hér inn, ég fer frekar á feisbókina og skrái hvað ég er að aðhafast.
Annars er ég svolítið döpur í dag, heyrði í gærkvöldi 20 ára gamalt slúður um ágætisfólk (flest allt) sem ég hélt að hefði verið kveðið niður fyrir langa löngu. Þetta rótarlega slúður angraði fólkið mikið á sínum tíma og ég hreinlega ætlaði ekki að trúa hvað svona nokkuð getur verið langlíft og reiddist all heiftarlega.
En, það er kominn 17. júní svo við skulum ekki vera í leiðu skapi, sólin skín og einhvers staðar syngja fuglar svo er hægt að óska sér nokkurs betra?

þriðjudagur, maí 26, 2009

 

Sól, sól, skín á mig

Nú er orðið langt síðan ég hef sett eitthvað hingað inn en það stafar fyrst og fremst af því að ég hef ekki haft neitt að segja og eins og gáfuð manneskja sagði einhvern tíma: Ef þú hefur ekkert að segja er réttast að þegja. En nú er sumarið að bresta á með sól og blíðu - sumir kvarta reyndar undan rigningu en það eru bara hitaskúrir við og við og nauðsynlegt gróðrinum. Í "gróðurhúsinu" á svölunum er allt á réttri leið, og meira að segja nýju sólblómin eru farin að gægjast upp úr moldinni og eru bara nokkuð hraustleg og löngu komin út á svalagólfið. Animónurnar blómstra og sumarblómin sem ég sáði með þeim eru líka farin að koma upp. Ég er alveg ákveðin í að fá mér annan svona stamp og stinga niður í hann laukum í haust svo ég fái upp krókusa, páskaliljur og túlipana næsta vor.
Í gær var ég svo á skemmtilegum undirbúningsfundi fyrir ættarmótið í júlí og nú bíð ég eftir tölvupósti frá syninum til að sjá hvað það var sem ég lofaði að gera.
Það sem aðallega angrar mig er að það er víst útséð um að við vinkonurnar förum í ferðina okkar austur á Hérað í ágúst eins og ráðgert var. Reyndar gerir það meira en að angra mig, ég er bæði sár og öskureið.

mánudagur, apríl 27, 2009

 

Eftir tónleika- og kosningaþreyta

Jæja, gott fólk, þá eru kosningarnar afstaðnar og niðurstaðan hreint prýðileg, allavega er hún mjög að mínu skapi. Eiginlega rann sumardagurinn fyrsti alveg saman við kosningahelgina, en Gloríutónleikarnir á sumardaginn fyrsta tókust mæta vel og sömuleiðis söngurinn hjá litla kórnum í Kvennakirkjunni um helgina. Ég tók laugardaginn snemma, mætti á kjörstað upp úr tíu og setti kross við réttan bókstaf. Svo tók við söngur og enn meiri söngur, ég meira að segja vakti ekki yfir kosningasjónvarpinu nema til rétt rúmlega tvö, en þrátt fyrir það og að sofa til rúmlega níu í gærmorgun var ég dauðþreytt í gærkvöldi eftir sunnudagsstússið og farin í rúmið fyrir klukkan ellefu. En eins og oft er maður eins og sprungin blaðra eftir svona tarnir svo ég hef ekki gert mikið af viti í dag. Á morgun kemur svo nýr dagur og þá hef ég ákveðið að vera hress. Hitt er svo annað mál að við hjónakornin þurfum að taka rækilega til á heimilinu, hér er ryk í hverju skoti. Ef ég ætla að fá gesti í afmæliskaffi á sunnudaginn er víst eins gott að þurfa ekki að afhenda þeim hlífðarföt við komuna! Og "gróðurhúsið" verður sett upp í vikunni þrátt fyrir að sumarblómin ætli ekki að stinga upp kollinum, mér tókst meira að segja að drepa það sem upp var komið! Hins vegar er allt að fyllast af kryddjurtum hjá mér ásamt papriku- og tómatplöntum. Vona bara að ég fari nú ekki að drepa þær.

föstudagur, apríl 10, 2009

 

Gleðilega páska!

Ég vil óska landsmönnum öllum (líka sjálfstæðismönnum) gleðilegra pása og vona að allir geti iðkað það sem hugur þeirra stendur helst til yfir hátíðisdagana, hvort heldur það er að sækja eitthvað af öllum þeim glæsilegu viðburðum sem fara fram í kirkjum landsmanna þessa daga eða norpa á Austurvelli og spila bingó. Megi innra sólskin og kærleikur umvefja ykkur öll, elskurnar mínar. Lifið heil.

sunnudagur, mars 29, 2009

 

Messíasarkomplex

Skyldi fólk loksins hafa sannfærst um andlegt ástand fyrrverandi seðlabankastjóra eftir ræðuna hans á landsfundinum? Ég hélt að þeir sem líktu sér við Jesú Krist væru yfirleitt geymdir í stóru hvítu húsi inn við sundin blá. Sem betur fer er maðurinn ekki lengur í valdastöðu í þjóðfélaginu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?